Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 11:40:47 (5991)

2000-04-06 11:40:47# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[11:40]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær framsöguræður sem hafa verið hér á undan og skýra mjög vel starf Norðurlandaráðs og mikilvægi norræns samstarfs. Norrænt samstarf er þungamiðja í utanríkisstefnu okkar Íslendinga og það ber að ræða mjög ítarlega og vekja athygli á því.

Maður finnur það í þessu samstarfi að það eru ekki bara við Íslendingar sem lítum svo á að norrænt samstarf hafi mikla kosti. Við finnum það t.d. þegar verið er að fjalla um uppgang nýnasismans á Norðurlöndum núna hversu mikilvægt er fyrir hinar Norðurlandaþjóðirnar að starfa saman og reyna að vinna bug á þeirri plágu sem uppgangur nýnasismans er á Norðurlöndunum og þar hafa menn fundið styrk af samstarfinu við þá baráttu.

Hæstv. forseti. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni tvö verkefni sem ég hef tekið þátt í á norrænum vettvangi með sæti mínu í Norðurlandaráði á síðasta ári. Það var haustið 1998 sem Norðurlandanefnd setti á fót vinnuhóp um málefni barna og unglinga og í honum áttu sæti sjö þingmenn af Norðurlöndunum. Það var afskaplega áhugavert að taka þátt í þessu starfi og veitti manni mikla innsýn í það sem er að gerast á Norðurlöndunum varðandi starf fyrir börn og unglinga og ekki síður hér á landi. Hópurinn átti einmitt eins og hér hefur verið nefnt einn fund á Egilsstöðum þar sem við fengum mjög góðar upplýsingar frá íslenskum aðilum varðandi það sem verið er að gera hér. Sérstaka athygli vakti erindi Karls Steinars Valssonar frá karlanefnd Jafnréttisráðs og einnig hinna sem þarna komu; Þórhildar Líndal, umboðsmanns barna, og Helgu Guðmundsdóttur sem fjallaði um starf með börnum og unglingum í dreifbýli og tók sitt starf á Egilsstöðum sem gott dæmi um það. En verkefni hópsins var að draga upp útlínur að helstu vandamálum á möguleikum barna og unglinga á Norðurlöndunum á þröskuldi nýrrar aldar.

Vinnuhópurinn fundaði fimm sinnum og í starfi sínu lagði hann sérstaka áherslu á réttindi barna og unglinga, baráttu gegn einelti, menntamál, félagsmál og heilsuverndarmál þessa þjóðfélagshóps. Það er aðeins misvísandi sem kemur fram í skýrslu nefndarinnar að ekki var einungis um eina tillögu að ræða sem kom út úr starfi hópsins, heldur voru tillögurnar þrjár. Það var ein þverfagleg tillaga og vinnuáætlun, eins og kemur fram í skýrsluni, þar sem skorað er á norrænu ráðherranefndina að vinna sérstaka aðgerðaráætlun fyrir börn og unglinga og þróa norræna samvinnu um andlega heilsu barna, að hafa samvinnu við norræna umboðsmenn barna um að skýrgreina hvað felst í hugtakinu ,,barnets beste``, að vinna að því að tryggja hagsmuni barna innan réttarkerfisins, að innleiða og framkvæma barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að innleiða aðferðir til að tryggja börnum og ungu fólki áhrif í samfélaginu.

[11:45]

Einnig var tillaga varðandi einelti og ofbeldi meðal barna og síðan tillagan sem hér er nefnd um börn og unglinga í dreifbýli. Ég lagði mesta áherslu á þetta atriði í starfi mínu og ég held að tími sé til kominn að skoða vandlega hverjar eru sérstakar aðstæður barna og unglinga á landsbyggðinni. Ástæðan er sú að þó að Norðurlöndin standi framarlega í málefnum barna og unglinga hafa rannsóknir og aðgerða\-áætlanir miðað nær eingöngu við þann hóp sem býr í borgum og bæjum. Samtímis finnast nær engar rannsóknir á högum barna og unglinga í dreifbýli, m.a. hvað varðar aðstöðu eða aðstöðumun í menntamálum, félagsmálum, réttindamálum og almennum uppvaxtarskilyrðum.

Á Norðurlöndunum býr mikill fjöldi fólks í dreifbýli og mikill fjöldi barna og unglinga. Aðstæður þessa hóps eru aðrar en í þéttbýli, möguleikarnir eru mismunandi og vandamálin að sumu leyti frábrugðin. Nauðsynlegt er að afla meiri þekkingar á högum þessa hóps til að geta mótað skynsamlega stefnu.

Í tillögunni felst að lagt er til að norræna ráðherranefndin láti vinna skýrslu um stöðu barna og unglinga í dreifbýli, sem skoði m.a. að hve miklu leyti menntamál og félagsleg réttindi þeirra eru tryggð í sama mæli og í þéttbýli, í öðru lagi kosti og galla þess að alast upp í dreifbýli og safna nýjum upplýsingum þar að lútandi og í þriðja lagi hvernig upplýsingatækni getur komið að notum við að draga úr göllum þess að alast upp í fámenni og einangruðu samfélagi og þá er verið vísa bæði í internet, spjallrásir, tölvupóst o.fl.

Skorað er á norrænu ráðherranefndina að styðja samvinnu milli dreifðra byggða sem lýtur að því að skiptast á upplýsingum og reynslu af stefnumótun fyrir börn og unglinga. Þar eð engar rannsóknir hafa farið fram á Norðurlöndunum á stöðu barna og unglinga í dreifbýli gæti skýrsla af þessu tagi verið grunnur að stærra rannsóknarverkefni í þessum málaflokki, þ.e. samnorrænu rannsóknarverkefni.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var að nefna hvernig staðið yrði að þessu. Ég held að augljóst sé að þetta verður að vera samnorrænt verkefni. Það er ósk og von okkar að ráðherranefndin sinni þessu og að hún veiti í þetta verulegu fé því að þetta mun kosta töluvert og þá verði augum beint að samnorrænum rannsóknum á aðstæðum barna og unglinga í dreifbýli og þetta þarf að gera sem fyrst. Ég trúi því og treysti að ráðherranefndin muni sinna þessu verkefni.

Ég vildi einnig nefna það starf sem ég átti þátt í um vinnu eftirlitsnefndarinnar. Ég tók sæti í henni á miðju síðasta ári og þá var, eins og gefur að skilja, komin vel af stað sú vinna sem eftirlitsnefndin var að huga að á þeim tíma, en eftirlitsnefndin annast eftirlit þingmanna með starfsemi sem fjármögnuð er með sameiginlegu norrænu fjármagni og getur einnig skoðað norrænt samstarf að öðru leyti. Auk þess sem skoðaðir voru ársreikningar og ársskýrslur Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar velur eftirlitsnefndin á hverju ári eitt eða fleiri svið til sérstakrar skoðunar. Fyrir árið 1999 var slíku eftirliti beint að því hvernig farið sé eftir tilmælum Norðurlandaráðs.

Það er skoðun mín að það sé afskaplega mikilvægt að því starfi sé framfylgt sem fer fram í Norðurlandaráði og þeim tilmælum sem samþykkt eru á Norðurlandaráðsþinginu. Eins og menn vita var samþykkt tillaga á þinginu í Stokkhólmi þar sem eftirlitsnefndin lagði til að ríkisstjórnir Norðurlanda færu yfir verklag sitt varðandi meðferð og pólitíska úrvinnslu tilmæla Norðurlandaráðs, að þær þrói í samráði við norrænar samstarfsstofnanir upplýsingar um meðferð tilmæla og skjalahald, að þær hafi forgöngu um samráð fulltrúa í embættismannanefndum og embættismanna á hinum ýmsu skrifstofum Norðurlandaráðs, að þær geri í tilkynningum eftir því sem hægt er grein fyrir áhrifum þeirra ráðstafana sem samþykktar hafa verið og að þær taki að nýju upp kerfi þar sem framlag einstakra landa til tilkynninga verði aðgengilegt fyrir fulltrúa Norðurlandaráðs.

Síðan beindi eftirlitsnefndin einnig til Norðurlandaráðs, og sú tillaga var samþykkt, að setja öll tilmæli á dagskrá á þingum ráðsins, að vanda enn frekar gerð tilmæla og að á þau verði litið miðað við framkvæmdaáætlun á hverju sviði og að hvetja deildir landanna til að fjalla um þær tillögur í skýrslunni og að þeim tilmælum Norðurlandaráðs verði framfylgt sem varða þeirra eigið þing og ríkisstjórn. Ég tel ekki síður mikilvægt að við fjöllum um þetta á Alþingi og að við fylgjum því eftir hvernig ráðherrar okkar fylgja eftir þeim tillögum sem að þeim er beint á Norðurlandaráðsþingum. Þetta snýr að starfi okkar í þinginu og er mikilvægt að því verði fylgt eftir.

Ég vil að lokum geta þess að það norræna samstarf sem ég hef tekið þátt í hefur haft mikið gildi fyrir mig sem þingmann til að víkka sjóndeildarhringinn. Oft og tíðum heyrum við þingmenn að þetta starf skili ekki nokkrum hlut varðandi vinnu okkar sem þingmanna en það er að mínu áliti síður en svo. Þetta starf hefur mikið gildi, mikið gildi fyrir Alþingi og það hefur mikið gildi fyrir okkur hvert um sig sem þingmenn við störf okkar.