Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 11:53:16 (5992)

2000-04-06 11:53:16# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[11:53]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Á síðasta ári fór Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og sinnti því mikilvæga verkefni með sóma. Ég sé sérstaka ástæðu til að þakka hæstv. samstarfsráðherra Siv Friðleifsdóttur fyrir framlag hennar og Halldóri Ásgrímssyni fyrir framlag hans ásamt starfsfólki Norðurlandaskrifstofunnar.

Ég vil gera norrænu fjárlögin að sérstöku umtalsefni. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi áðan að ekki hefði verið nein aukning á norrænu fjárlögunum á síðustu árum. Undir það tek ég og það er mikið áhyggjuefni. Hið hefðbundna norræna samstarf hefur þvert á móti verið skorið niður þrátt fyrir það að á hverju ári sé verið að koma inn með ný verkefni. Það hefur einfaldlega þýtt að það hefur verið skorið niður á mjög mörgum sviðum en á sama tíma hefur áherslan á grannsvæðasamstarfið verið aukin mjög mikið svo að það tekur núna um 20% af heildarframlaginu.

Við verðum að horfast í augu við það sem búum á Vestur-Norðurlöndum að sá hluti Norðurlandanna hefur orðið nokkuð út undan í allri umræðunni og áherslunni sem er á grannsvæðasamstarfið í austri. Auðvitað er mikilvægt að við stöndum vörð um Vestur-Norðurlöndin hvað þetta snertir.

Núna er unnið að norrænu fjárlögunum fyrir næsta ár og þau verða meginefni sumarfunda Norðurlandaráðs í júní. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra Sivjar Friðleifsdóttur hvernig þeirri vinnu miði því að ljóst er að ákveðin vandamál hafa verið á ferðinni við að koma norrænu fjárlögunum saman og ég veit að verið er að vinna að því hörðum höndum þessa dagana. Það væri mjög áhugavert að fá að vita hvort það er eitthvað sem ráðherra gæti fært inn í umræðuna hvað það snertir.

En áætlun Íslands á formennskuárinu laut sérstaklega að málefnum Vestur-Norðurlanda og Norðurskautssvæðanna. Við lögðum áherslu á að norræn samvinna gæfi þessum svæðum sérstakan gaum og að þau væru gerð meira sýnileg. Sérstakar áherslur formennskuárs Íslands birtust í áætluninni Fólk og haf í norðri, sem ráðherra fjallaði um í máli sínu, en þar var lögð veruleg áhersla á umhverfismál, sjálfbæra nýtingu auðlinda og sjálfbæra þróun. Lögð var sérstök áhersla á aðstæður fólks í dreifðum byggðum landsins og það hefur beina skírskotun til Íslands en við þekkjum öll þann vanda sem steðjar að landsbyggðinni. Í því sambandi má einnig benda á að á þinginu í Stokkhólmi samþykkti Norðurlandaráð tilmæli um börn og ungt fólk í dreifbýli. Þar er skorað á norrænu ráðherranefndina að m.a. verði unnin rannsókn á aðstæðum barna og ungs fólks í dreifðum byggðum á Norðurlöndum og tek ég alveg sérstaklega undir orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um mikilvægi þess máls.

Athugun ráðherranefndarinnar á m.a. að leita svara við hvernig réttindi barna og unglinga eru virt með tilliti til möguleika til menntunar og félagslegra aðstæðna og þá sérstaklega barna og unglinga í dreifbýli. Þá skal athugunin afla þekkingar á kostum og göllum þess að vera barn eða unglingur í dreifbýli og hvernig þróun upplýsingatækninnar geti haldið hugsanlegum ókostum þess í lágmarki og hvernig unnt sé að styrkja þá þróun.

Í nóvember í ár verður 52. þing Norðurlandaráðs haldið á Íslandi. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hefur veg og vanda af skipulagningu þess og vinnan er komin vel á veg. Þingið er auðvitað stórt í sniðum og má reikna með því að um eitt þúsund manns verði á þinginu þegar allt er talið, þingmenn og ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum, mikill fjöldi fréttamanna og erlendra gesta. Þingið verður haldið í Háskólabíói og á Hótel Sögu eins og við höfum gert undanfarin skipti sem við höfum haldið Norðurlandaráðsþing hér á landi og auðvitað er óhætt að segja að Íslandsdeild Norðurlandaráðs mun gera sitt ýtrasta til að gera þingið sem veglegast.

Drög að dagskrá þingsins voru samþykkt af forsætisnefnd Norðurlandaráðs nú í byrjun mars. Rétt er að geta þess sérstaklega að samþykkt var að stytta þingið um einn sólarhring, m.a. vegna eindreginna óska forseta norrænu þjóðþinganna. Ekki var unnt að gera þetta nema með því að stytta dagskrána og hugsanlega takmarka ræðutíma en vonast er til að þetta fyrirkomulag komi ekki niður á hinni pólitísku umræðu á þinginu. Búast má við að umræðan verði mjög lífleg enda verða mörg spennandi mál sem til umfjöllunar á þinginu. Þar ber hæst skýrslu aldamótanefndarinnar eða ,,vísra manna nefndarinnar`` sem Jón Sigurðsson, bankastjóri Norræna fjárfestingabankans, stýrir en hún verður lögð fram í haust og rædd á þinginu.

Í tengslum við þingið er rétt að minnast á Upplýsingaskrifstofu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinar en fyrir ári voru upplýsingaskrifstofur Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar sameinaðar í tilraunaskyni. Nú í haust var Sigrún Stefánsdóttir ráðin sem deildarstjóri. Upplýsingaskrifstofan mun stuðla að öflugri kynningu og samstarfi við fréttamenn í tengslum við þing Norðurlandaráðs á Íslandi og þess má vænta að við fáum verulega landkynningu í kjölfarið.

[12:00]

Samhliða þinginu verður staðið fyrir menningardagskrá sem vel verður vandað til. Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs höfum lagt áherslu á að efni dagskrárinnar og umgerð snúi fyrst og fremst út á við, þ.e. að almenningur fái notið norrænnar menningar og lista í tengslum við þing Norðurlandaráðs á Íslandi.

Ísland hafði frumkvæði að því að vísra manna nefndinni var komið á fót. Hlutverk hennar er að móta og koma með tillögur að framtíðarinnihaldi norrænnar samvinnu nú í byrjun nýs árþúsunds. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að meta kosti þess að taka upp grannsvæðasamstarf við lönd í vestri, þ.e. Skotland, Hjaltlandseyjar og Nýfundnaland. Lífsskilyrði á þessum svæðum eru um margt svipuð og á Vestur-Norðurlöndum. Hin síðustu ár hefur grannsvæðasamstarf Norðurlanda aðallega beinst að svæðunum í austri eins og ég nefndi áðan. Það hefur kostað verulega fjármuni en hefur hins vegar leitt til þess að skorið hefur verið niður til hinnar hefðbundnu norrænu samvinnu. Nú er svo komið að við þurfum að meta hvort ekki sé rétt að beina áherslum okkar í auknum mæli í vestur, þ.e. til Færeyja, Íslands, Grænlands og hugsanlega nýrra grannsvæða. Ég hef áhuga á því að fara alveg sérstaklega ofan í þessi mál og skoða hvort við Íslendingar gætum ekki haft frumkvæði að einhverju í þessa veru á formennskuári okkar í Norðurlandaráði.

Jón Sigurðsson kom á fund í forsætisnefnd Norðurlandaráðs núna í janúar og greindi frá því helsta sem vísra manna nefndin fjallar um. Skýrslu nefndarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu og forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur þegar ákveðið vinnuferli til að meðhöndla skýrsluna en hún verður lögð fram í september. Ég vildi spyrja ráðherra nánar um hvernig þessi vinna stendur og hvort þess sé að vænta að skýrslunni verði lokið í september. Hvaða línur hafa verið lagðar og hvernig stendur sú vinna? Það verður líka spennandi að í kjölfarið mun Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin skoða hvort gera þurfi einhverjar skipulagsbreytingar á norrænu samvinnunni.

Gildi norrænnar samvinnu kom berlega í ljós á síðasta hausti þegar Norðurlöndin opnuðu sameiginlegt sendiráð í Berlín. Samstaðan sem Norðurlöndin sýndu með því framtaki vakti verðskuldaða athygli í Þýskalandi og víðar. Byggingarnar eru óvenju glæsilegar og framlag Íslands er alveg sérstaklega fallegt og vel heppnað. Það er mikilvægt að Norðurlöndin haldi fast saman í framtíðinni eins og þau hafa jafnan gert. Þau eru fyrirmynd svæðasamstarfs í Evrópu gegnum tíðina og þess vegna var sendiráðsopnunin í Berlín mjög mikilvægur og táknrænn viðburður sem sýndi áþreifanlega í alþjóðlegu samhengi samstöðu og stefnu Norðurlandanna í norrænu samstarfi.