Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:42:39 (5999)

2000-04-06 12:42:39# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af spurningu hv. þm. vil ég taka fram að innan Evrópusambandsins vöruðu margir við svæðasamstarfi. Þegar Finnland og Svíþjóð gengu inn í Evrópusambandið var lögð áhersla á að ekki væri verið að mynda blokk meðal Norðurlandanna heldur færu þau þar inn sem sjálfstæð ríki. Ekki var talið líklegt að Norðurlöndin kæmu til með að hafa nána samvinnu á vettvangi Evrópusambandsins.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé allt að breytast, að samstarf milli ríkja innan Evrópusambandsins sé að stóraukast og þar eigi sér stað nokkur svæðaskipting. Eftir því sem Evrópusambandið stækkar meir hef ég trú á að þetta samstarf ákveðinna svæða muni eflast og aukast. Auðvitað get ég ekki fullyrt um þetta. Ég hef hins vegar séð það í öllu alþjóðasamstarfi að eftir því sem fleiri ríki taka þátt í því, þeim mun meira verður samstarf á ákveðnum svæðum. Þetta hefur að sjálfsögðu gerst hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta hefur gerst í Alþjóðabankanum þó að þar eigi enn þá fleiri ríki aðild. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé og verði þróunin innan Evrópusambandsins enda eru Norðurlöndin ekki lengur viðkvæm fyrir því að vinna saman eða því að taka Ísland og Noreg þar með ef þess er nokkur kostur. Ástæðan fyrir því að við höfum m.a. komist inn í samstarfið með þessum hætti er fyrst og fremst samstarf okkar innan Norðurlandanna.