Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:46:48 (6001)

2000-04-06 12:46:48# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær upplýsingar sem komu fram í máli hæstv. utanrrh. Ég vil hins vegar beina til hans spurningu varðandi formennskuáætlun hans í ráðherrasamstarfinu. Hann lagði sérstaka áherslu á byggðamál í formennskuáætlun sinni. Mig langar að heyra frá honum hvernig hann telji það hafa skilað sér og nefna sérstaklega að í skýrslunni kemur fram að boðið hafi verið upp á þann möguleika að norræna samstarfið í byggðamálum standi fyrir og kosti rannsókn og umfjöllun um byggðastefnu í einu af löndunum. Þetta hefur þegar verið gert í Finnlandi og unnið hefur verið að athugun á sóknarfærum í upplýsingatækni sem áhrifavaldi í byggðaþróun og fleiri afmörkuðum málum. Mér þætti vænt um ef hæstv. utanrrh. segði okkur aðeins frá því hvernig þetta samstarf hefði gengið og einnig hvort hann telji að við getum lært eitthvað af Norðurlandaþjóðunum varðandi það sem við höfum rætt mjög mikið á Íslandi, að flytja störf út til hinna dreifðu byggða í tengslum við upplýsingatæknina.