Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 12:53:35 (6005)

2000-04-06 12:53:35# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. utanrrh. hvað varðar samstarf Norðurlandanna innan Evrópusambandsins. Það virðist vera að sú afstaða sem lá fyrir í upphafi sé eitthvað að breytast, en þá var lögð sérstök áhersla á það af hálfu Norðurlandanna þegar Svíþjóð og Finnland fóru inn í Evrópusambandið mundu þau ekki mynda þar blokk, Norðurlöndin þrjú. Hins vegar er það þannig að áherslur Norðurlandanna verða meira og meira áberandi innan Evrópusambandsins. Málflutningur þeirra virðist virkilega ná í gegn og tillögur Finna um norðlægu víddina sem eru að ná inn í framkvæmdaáætlun Evrópusambandsins eru auðvitað mjög mikilvægar.

Vert er að geta þess í þessu sambandi að það styttist í að Svíar taki við formennsku innan Evrópusambandsins, ef ég man rétt er það seinni hluta þessa árs svo enn verða Norðurlöndin í forustuhlutverki þar.

Ég vil líka nefna sérstaklega í umræðunni að önnur lönd innan Evrópusambandsins, t.d. Holland, Belgía og Lúxemborg, eru með mjög öflugt svæðissamstarf. Þau hafa ekki séð ástæðu til annars en halda því mjög til streitu. Ég átti þess kost að sitja þing þeirra í mars sl. Mér þótti það vera mjög áhugavert og það var alveg greinilegt að engin önnur áform voru uppi hjá þeim en að halda sig mjög fast við það svæðisbundna samstarf.

Ég tek enn fremur undir það sem fram hefur komið hér í umræðum í dag í máli hv. samstarfsráðherra að það er aukin og vaxandi áhersla á svæðisbundið samstarf.