Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:28:46 (6013)

2000-04-06 14:28:46# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Fyrr í dag þegar við töluðum um fyrsta og annan dagskrárlið, skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni og skýrslu um norrænt samstarf, þá lét ég þess getið að Norðurlandasamvinnan hefði verið í vissu uppnámi kannski síðustu tíu ár vegna breytinga á alþjóðavettvangi. Ég nefndi sérstaklega til sögunnar breytta stöðu í Eystrasaltsríkjunum þar sem þau eru öll orðin sjálfstæð og við höfum einbeitt okkur að samvinnu við þau. Ég gat sérstaklega um breytta stöðu Finna og Svía þar sem þeir eru nú gengnir í Efnahagsbandalagið og hafa á síðustu árum beitt miklum kröftum í vinnu sem lítur að aðlögun að vinnuferli og vinnumáta gagnvart nýjum samstarfsaðilum.

Ég vil byrja á því eins og varðandi fyrsta og annan dagskrárlið fyrr í dag að þakka því fólki sem hefur unnið frábært starf á vegum Vestnorrænu nefndarinnar. Hér er komin till. til þál. út úr vinnu þeirra og ég vil árétta að það er góðra gjalda vert og mjög athyglisverðar tillögur sem hafa komið út úr þessu samstarfi. En á sama hátt og varðandi skýrslu ráðherranefndarinnar og skýrslu um norrænt samstarf held ég að við höfum gott af því að skoða málin í nýju ljósi akkúrat núna. Öll þau atriði sem till. til þál. um ályktanir Vestnorræna ráðsins eru auðvitað góðra gjalda verð og ber að styðja. En ég sakna meira þess sem ekki er í skýrslunni og þá á ég kannski við grunninn að því varðandi þau vandamál sem þáltill. miðar að því að leysa, þ.e. stöðu kvenna í öllum liðum frá a til g í þessum dreifðu byggðum, sem sagt á vestnorræna svæðinu.

[14:30]

Ég sakna þess að vestnorræna samvinnan skuli ekki í mjög auknum mæli vera panel eða forum fyrir aukna samvinnu t.d. um nýtingu auðlindanna, atvinnumál í víðum skilningi. Það er t.d. hagsmunamál okkar að verslunin sé skoðuð alveg sérstaklega því að Danir hafa vegna stöðu sinnar bæði í Grænlandi og Færeyjum haft nánast algjöra einokun á verslun þangað til núna á allra síðustu árum. Það eru mjög miklir möguleikar fyrir okkur Íslendinga og fyrir Grænlendinga og Færeyinga að auka samskiptin á milli landanna t.d. á sviði verslunar, sölu á iðnvarningi o.fl.

Við þurfum líka að leggja mjög aukna áherslu á ferðamennskuna í sambandi við vestnorræna samstarfið. Nú hefur verið tilkynnt að Flugfélag Íslands er að hefja beint flug á Grænland, áður var það Flugfélag Norðurlands sem stóð í þessari samvinnu. Þarna eru gríðarlegir möguleikar sem þarf að rækta og þarf að setja aukinn kraft í.

Á sviði fiskveiða þurfum við nauðsynlega, sérstaklega gagnvart Grænlandi, að fara í alvarlegar umræður um sameiginlega nýtingu og vinnslu stofna. Þar hefur átt sér stað þróun á undanförnum árum með samvinnu fyrirtækja eins og Samherja og Grænlandsverslunar eða konunglegu Grænlandsverslunarinnar á sviði rækjusölu o.fl. Það eru þessi grundvallaratriði sem ég held að við þyrftum að rækta betur, þ.e. hreinlega beint á sviði atvinnumála. Ég er ekki að gera lítið úr því sem hefur verið gert, ég er sammála því sem sett er fram en ég held að við eigum gríðarleg sóknarfæri í þeim samvinnumöguleikum sem felast í samvinnu á sviði atvinnulífs. Ég vil árétta að það er mjög mikilvægt fyrir okkur og fyrir Grænlendinga og Færeyinga líka því við erum líkar þjóðir að mörgu leyti og það er mjög mikilvægt að við getum opnað brautir sem gera okkur mögulegt að auka verslun og viðskipti á öllum sviðum.

Það er fyrst og fremst þetta sem ég vildi koma á framfæri í umræðunni. Ég held að mergurinn málsins sé í sambandi við vestnorrænu samvinnuna, alveg eins Norðurlandasamvinnuna í það heila tekið, að einmitt núna stöndum við á þeim tímamótum að við þurfum að endurskoða alla þessa samvinnu. Þegar við lítum og horfum gagnrýnum augum á það sem gerst hefur síðustu tíu ár með aukinni áherslu Skandinavíuþjóðanna á Balkanlöndin og samvinnuna við þau, með aukinni samvinnu Svía og Norðmanna suður á bóginn, þá höfum við hvort sem okkur líkar betur eða verr að viðurkenna það, á þessu tíu ára tímabili verið í mjög erfiðri stöðu með Norðurlandasamstarfið. Kannski var aukin samvinna og stofnun Vestnorræna ráðsins og aukin vinna þar, bara afleiðing af því sem gerðist eða hefur gerst síðustu tíu árin.

Þetta þarf að skoða í nýju ljósi. Okkur er ekki hollt að taka okkur saman, dreifbýlið einvörðungu, taka okkur út úr og ræða um vandamál okkar og funda um þau og gera ráðstafanir, við þurfum á því að halda að vera með meiri breidd í þessu og við þurfum alla Norðurlandasamvinnuna undir. Þess vegna held ég að á næstu árum eigum við að einbeita okkur að því að ræða þessi mál í nýju ljósi. Við skulum segja að komin sé ró á hlutina varðandi samvinnuna við Eystrasaltsríkin. Kannski má segja að Finnar og Svíar séu búnir að fóta sig í samvinnunni við Evrópusambandið. Ég held að núna sé lag til að skoða þessi mál öll ofan í kjölinn og leggja nýja línu til næstu 10--20 ára hvernig við ætlum að vinna þessi mál. Við þurfum á því að halda að auka tenginguna við Skandinavíu, Danmörku, Noreg, Svíþjóð og Finnland, það er okkur hollt fyrir allra hluta sakir. Við getum lent í því ef við einangrum okkur um of í samvinnunni innbyrðis í þessum dreifbýlu löndum að missa af tækifærum og af ,,impúlsum`` sem eru okkur svo nauðsynlegir til að þroska og þróa framfarir fyrir alla.

En enn og aftur, ég held að miklir möguleikar séu í efnahagslegri samvinnu og ég held að það eigi að auka áhersluna á hina efnahagslegu samvinnu mjög mikið. Ég tel reyndar að aukin efnahagsleg samvinna á sem flestum sviðum leiði af sér lausn á mjög mörgum af þeim liðum sem eru settir fram í till. til þál. um ályktanir Vestnorræna ráðsins. Það sem stendur alltaf upp úr varðandi stöðu, t.d. kvenna í dreifbýlinu í þessum dreifðu byggðum eru atvinnumálin, möguleikar kvenna, eftir að þær hafa aflað sér menntunar, til þess að fá störf o.s.frv. Grunnurinn liggur að víðtækri samvinnu til þess að byggja upp atvinnulíf, háþróað, sem fólk sækir í og getur nýst öllum.

Að endingu, virðulegi forseti, vil ég árétta að það er mikið og merkilegt og gott starf sem okkar fólk hefur unnið á þessu sviði og hefur skilað miklum árangri. En varðandi Norðurlandasamvinnuna alla vil ég segja eins og í fyrri ræðu minni að ég held að á þessum tímamótum, vegna stöðunnar, ættum við að eyða nokkrum tíma í að ræða hvernig við viljum taka næstu skref til þess að efla samvinnu okkar, þessi norræna fjölskylda, og taka nýjan stefnu.