Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:40:18 (6015)

2000-04-06 14:40:18# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, Flm. ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Flm. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir hvatningu um að samstarf á sviði atvinnumála verði aukið, og ekki bara í okkar ranni heldur til lengri fjarlægða litið. Við leggjum höfuðáherslu á það í Vestnorræna ráðinu að rækta garðinn í okkar hring en viljum hafa allar aðrar dyr opnar líka og eigum að horfa til þess.

Hluti af þessu er í hugmyndinni um aukið samstarf á sviði menntunar milli landanna þriggja, Færeyja, Íslands og Grænlands, því að það er horft beint til þess að í framhaldi af menntuninni verði það atvinnan og atvinnusköpunin. Ágætis þróun hefur átt sér stað í þessum málum á undanförnum árum, þ.e. aukning hefur orðið. Til að mynda hafa viðskipti Grænlands við Ísland aukist stórlega á undanförnum árum svo nemur milljörðum. Því miður hefur það ekki verið gagnkvæmt af okkar hálfu en allt þarf þetta að vinnast í einni heild.

Ég held það sé líka mikilvægt að menn taki skref en ekki stór stökk, vegna þess að reginmunur er á möguleikum okkar til þess að ganga til samstarfs við Grænlendinga og Færeyinga eða til að mynda við Svía sem líta svolítið öðrum augum á okkur og finnst við minni en við vildum. Við þurfum að gera þetta markvisst en hugmyndin er öflug og mikilvægt að fylgja henni eftir. Þetta er vettvangur Vestnorræna ráðsins og við reynum að fylgja því fast eftir að auka það samstarf með öllum tiltækum ráðum.