Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:46:09 (6018)

2000-04-06 14:46:09# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð hv. 1. þm. Suðurl., Árna Johnsens, að við eigum þarna gríðarlega mikið óunnið og marga möguleika og við eigum að efla þessi samskipti. Ég veit að hv. þm. Árni Johnsen þekkir þessa hluti manna best og gerir sér grein fyrir því hvaða gríðarlegu möguleikar eru fyrir hendi t.d. eins og í ferðamannaþjónustunni. Í raun og veru má segja að Íslendingar hafi hafið það samstarf því að nú er ferðaskrifstofa á Akureyri t.d. sem gerir nánast út á Austur-Grænland. Eins og ég sagði í minni ræðu þá er farið að fljúga, Flugfélag Íslands ætlar að fara að fljúga beint til Grænlands, sem er mjög mikið til bóta. Þarna eru gríðarlegir möguleikar sem okkur ber að rækta en líka á öllum hinum póstunum. Og um þetta erum við í raun öll sammála.

Ég vil nota þessa síðustu mínútu enn og aftur til þess að þakka nefndinni fyrir gott samstarf og árétta það enn og aftur að ég og minn flokkur viljum taka upp nýja sýn á Norðurlandasamstarfið og blása til nýrrar sóknar í þessari samvinnu allri þar sem nú er lag eftir tíu ára þróun, skulum við segja, gagnvart Eystrasaltslöndum og nokkurra ára þróun fyrir Finna og Svía að aðlaga sig að vinnunni gagnvart Evrópusambandinu.

Þarna eigum við gríðarlega möguleika. Það er bjart fram undan og okkur ber að efla þetta samstarf og þessa samvinnu.