2000-04-06 14:59:41# 125. lþ. 94.7 fundur 583. mál: #A staðfesting breytinga á stofnsamningi Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl, EUTELSAT# þál. 10/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar breytinga á stofnsamningi Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl, EUTELSAT, sem gerðir voru á 26. þingi aðila stofnunarinnar í Cardiff 19. maí 1999.

Upphaf þessarar stofnunar má rekja til ársins 1977 þegar hún var sett á laggirnar með bráðabirgðasamkomulagi. Endanlegur stofnsamningur var undirritaður 15. júlí 1982 í París þar sem stofnunin hefur aðsetur. Samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 12. júní 1987, en Alþingi hafði með ályktun 18. mars sama ár heimilað ríkisstjórninni að fullgilda samninginn. Samhliða undirritun stofnsamningsins undirrituðu símastjórnir aðildarríkjanna rekstrarsamkomulag. Hafa þær sem rekstraraðilar lagt fram hlutafé til stofnunarinnar og haft æðsta vald í daglegum rekstri hennar. Gervitungl stofnunarinnar veita svæðisbundna fjarskiptaþjónustu, þar með talinn flutning á sjónvarpsmerkjum. Rekstraraðilar hafa haft einkarétt á aðgangi að gervitunglum og því að veita fjarskiptaþjónustu um þau.

[15:00]

Hin almenna stefna Evrópusambandsins um afnám einkaréttar í fjarskiptum og markaðssjónarmið hefur valdið vaxandi gagnrýni á núverandi fyrirkomulag EUTELSAT. Það er talið hindra eðlilegan vöxt stofnunarinnar enda sé einkaréttur sá sem felst í stofnsamningnum í ósamræmi við ríkjandi markaðsaðstæður. Á þingi aðila stofnunarinnar í París 18.--20. maí á síðasta ári var þess vegna ákveðið að breyta rekstrarformi hennar með breytingum á stofnsamningi til að gera henni kleift að laga starfsemi sína að breyttum aðstæðum.

Meginbreytingin er sú að stofnað verður nýtt fyrirtæki, Eutelsat SA sem verður í upphafi staðsett í Frakklandi. Fyrirtækið mun starfrækja gervitunglakerfi og veita þjónustu um það. Í því skyni verða eignir EUTELSAT og starfsemi yfirfærð til nýja fyrirtækisins. Aðalverkefni þeirrar stofnunar verður að tryggja að fyrirtækið fari að grundvallarreglum.

Ég vil að endingu leggja til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.