Fullgilding samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jafnrétti

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:05:30 (6027)

2000-04-06 15:05:30# 125. lþ. 94.8 fundur 584. mál: #A fullgilding samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jafnrétti# þál. 11/125, RG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég styð fullgildingu á þessari samþykkt heils hugar. Hún er afskaplega mikilvæg og það kom vel fram í umræðunni sem fyrir jól þegar félmrh. bar fram frv. til þess að afgreiða tillöguna. Þau eru orðin æðimörg árin sem hefur verið bent á nauðsyn þess að fullgilda þessa samþykkt. Á sínum tíma var tillaga um það flutt samhliða tillögu um opinbera fjölskyldustefnu og jafnan hefur verið lögð áhersla á vilja verkalýðshreyfingarinnar til að fá tillöguna samþykkta. Það er óumdeilt að hún hefur sem slík áhrif sem þáttur í mikilvægri fjölskyldustefnu.

Af hverju hefur þá tekið svona langan tíma að fá samþykktina fullgilta úr því hún er góð og gagnast fjölskyldufólki og er jafnréttisákvæði fyrir fólk á vinnumarkaði? Það er vegna 8. gr. samþykktarinnar sem er um að ekki sé heimilt að segja fólki upp vegna fjölskylduaðstæðna og ótta vinnuveitenda við það að slík lögfesting bindi hendur þeirra. Þess vegna gerði ég vissa athugasemd við orðalag tillögugreinarinnar sem félmrh. bar fram fyrir jól sem var varfærin og óskaði eftir því að orðalagið væri sérstaklega skoðað í nefnd. Ég held það sé alveg óumdeilt að hér er verið að stíga það skref sem við höfum kallað eftir, að tryggja að fjölskyldufólk þurfi ekki að búast við uppsögn vegna fjölskylduábyrgðar. Ég fagna því alveg sérstaklega að þessi fullgilding er nú komin inn í þingið. Það er nefnilega þannig að í kjarasamningum hefur aldrei fengist tekið fullt tillit til aðstæðna fjölskyldna að þessu leyti og því var alveg ljóst að fullgilding þessarar samþykktar varð að koma til til að tryggja fjölskyldufólk á vinnumarkaði gagnvart uppsögnum.

Öll önnur ákvæði samþykktarinnar teljast í raun og veru þegar uppfyllt hérlendis og mörg ár síðan byrjað var að fara yfir þau ákvæði og hvort aðstæður hérlendis uppfylltu samþykktina fullkomlega. Svo reyndist vera. Það var fyrst og fremst 8. gr. sem varðar uppsagnir vegna fjölskylduábyrgðar. Bæði ASÍ og BSRB hafa heils hugar tekið undir að tillagan verði fullgilt og sömuleiðis Bandalag háskólamanna og flest öll samtök á vinnumarkaði sem hafa að einhverju leyti komið að þessu.

Því er mjög mikilvægt að samþykktin er komin inn í þingið. Það var í upphafi árs 1995 sem tillagan var fyrst borin inn í ríkisstjórn og eins og dropinn holar steininn er það svo að með sífelldri umræðu í þingsal og væntanlega eftirfylgni félmrh. að fylgja þessu eftir í tengslum við umræðu sem hér varð þegar samþykkt var opinber fjölskyldustefna, þá er samþykktin komin núna inn í þingið til fullgildingar sem og frv. ráðherra og ég fagna þessu alveg einlæglega.