Fullgilding samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:09:58 (6028)

2000-04-06 15:09:58# 125. lþ. 94.9 fundur 585. mál: #A fullgilding samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn# þál. 22/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sem samþykktur var í New York 10. september 1996. Samningur þessi er tvímælalaust mikilvægasti alþjóðasamningur undanfarinna ára og lýtur að kjarnavopnum. Samningurinn kveður á um allsherjarbann við tilraunum með kjarnasprengingar. Áður höfðu samningar náðst um bann við tilraunum í andrúmslofti í geimnum og neðan sjávar árið 1963 sem og um takmörkun sprenginga við 150 kílótonna styrkleika árið 1974.

Samningurinn gerir ráð fyrir alþjóðlegu eftirlitskerfi sem samanstendur af alls 321 stöð víðs vegar um heim í samtals 89 löndum. Kerfið er tvískipt, aðalkerfi og varakerfi. Tvær þessara stöðva eru staðsettar á Íslandi til mælinga á geislavirkni og jarðhræringum. Stöð til mælinga á geislavirkni tilheyrir aðalkerfinu og hún verður staðsett á Rjúpnahæð. Uppsetning stöðvarinnar er áætluð síðar á þessu ári. Hún verður í umsjón Geislavarna ríkisins sem munu einnig sjá um að miðla upplýsingum frá stöðinni til alþjóðlegrar gagnamiðstöðvar sem safnar saman upplýsingum frá stöðvum víðs vegar um heim. Stöð til jarðskjálftamælinga sem Veðurstofa Íslands hefur umsjón með er staðsett í nágrenni Borgarness og er henni ætlað að þjóna varakerfinu. Sérstök stofnun með aðsetur í Vínarborg hefur umsjón með framkvæmd samningsins og rekstri alþjóðaeftirlitskerfisins og gagnamiðstöðvarinnar.

Kjarnorkuveldin hafa frá árinu 1945 framkvæmt alls 2.046 sprengingar með kjarnavopn. Engar tilraunasprengingar fóru fram eftir að samningurinn var lagður fram til undirskriftar í september 1996 þar til í maí 1998 að Indland og Pakistan rufu þá samstöðu sem ríkti um allsherjarbann. Allsherjarbann við kjarnasprenginum hefur mikla þýðingu til að stemma stigu við vígbúnaðarkapphlaupi á sviði kjarnavopna.

Samningurinn setur ríkjum skorður í þróun á smíði kjarnavopna, einkum þeim ríkjum sem eiga ekki slík vopn fyrir en hafa í hyggju að koma þeim upp. Samningurinn hamlar einnig gegn frekari þróun nýrra vopna þeirra ríkja sem hafa þegar á að skipa kjarnavopnum. Samningurinn hefur þannig mjög mikið gildi í viðleitni til að stemma stigu við útbreiðslu kjarnavopna og hefta frekari þróun þeirra. Hann er einnig álitinn skipta miklu hvað varðar fækkun kjarnavopna.

Dómsmrn. hefur nú til athugunar hvort þörf er á setningu nýrra laga eða breytingum á núgildandi lögum til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem felast í þessum samningum. Ég tel mikilvægt að við staðfestum þennan samning sem fyrst og vænti þess að hv. utanrmn. taki hann til skjótrar úrlausnar og afgreiðslu.

Ég legg til að málinu vísað til hv. utanrmn. að lokinni umræðunni.