Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:14:14 (6029)

2000-04-06 15:14:14# 125. lþ. 94.10 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn sem samþykkt var á ríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Róm 17. júlí 1998.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn mun koma til með að hafa aðsetur í Haag. Hann hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

[15:15]

Stofnun dómstólsins er tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Unnið hefur verið að stofnun slíks dómstóls allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Dómstóllinn hefur sjálfvirka lögsögu í málum sem undir hann heyra, þ.e. óháða sérstöðu, samþykki viðkomandi ríkja. Skilyrði er þó að annaðhvort þegnríki sakbornings eða ríki þar sem hið meinta brot var framið sé aðili að samþykktinni. Sérstakur saksóknari starfar samkvæmt samþykktinni og getur hann að eigin frumkvæði eða eftir tilvísun frá aðildarríki eða öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafist handa við að rannsaka og gefa út ákæru í málum sem undir dómstólinn heyra. Samkvæmt samþykktinni er óheimilt að hefja eða halda áfram rannsókn eða saksókn í máli á eins árs tímabili eftir að öryggisráðið hefur lagt fram beiðni þar að lútandi til dómstólsins í samræmi við ályktun sem samþykkt er samkvæmt 7. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lögsaga Alþjóðlega sakamáladómstólsins er til fyllingar lögsögu einstakra ríkja til að saksækja og dæma í þeim málum sem hér um ræðir. Lögsaga dómstólsins verður því aðeins virk að viðkomandi ríki hafi sökum skorts á getu eða vilja látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn er varanlegur og hefur almenna lögsögu. Hann er því frábrugðinn alþjóðastríðsglæpadómstólnum í málefnum fyrrum Júgóslavíu og Rúanda sem hafa takmarkaða lögsögu bæði í tíma og rúmi.

Rómarsamþykktin var undirrituð fyrir Íslands hönd 26. ágúst 1998. Hinn 29. mars sl. höfðu alls 95 ríki undirritað samþykktina, en aðeins sjö ríki höfðu fullgilt hana. Samþykktin mun öðlast gildi tveimur mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hana og þar sem við höfum verið mjög hvetjandi um stofnun þessa dómstóls og unnið mikið að málinu allt frá upphafi, tel ég mjög mikilvægt að við séum jafnframt meðal fyrstu ríkja sem fullgilda þessa mikilvægu samþykkt.

Norðurlöndin hafa haft með sér samráð um undirbúning fullgildingar Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, enda er málið bæði flókið og umfangsmikið. Fullgilding Rómarsamþykktarinnar kallar á löggjöf um framkvæmd hennar hér á landi. Í dómsmrn. er unnið að undirbúningi frv. þar að lútandi og er gert ráð fyrir að það verði lagt fyrir Alþingi í upphafi næsta löggjafarþings.

Ég vil að þessum orðum sögðum, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.