Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:18:46 (6030)

2000-04-06 15:18:46# 125. lþ. 94.10 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, RG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að Alþingi heimili ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn sem samþykkt var í Róm 17. júlí 1998. Það var mjög jákvætt þegar Ísland tengdist yfirlýsingu sem utanrrh. Írlands flutti af hálfu Evrópusambandsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma þar sem verið var að styðja við stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls. Á þeim tíma bundu margir vonir við að slíkur dómstóll yrði orðinn að veruleika árið 2000 og mér sýnist að hér sé eitt skref í þá átt. Mér hefði fundist skipta mjög miklu máli að Ísland styddi við dómstólana, bæði að sjálfsögðu Alþjóðlega sakamáladómstólinn og ekki síður að styðja eins og unnt er stríðsglæpadómstólana í málefnum fyrrum Júgóslavíu og í Rúanda, sem hafa auðvitað takmarkaða lögsögu eins og kemur fram í greinargerð með þessari tillögu. Með stuðningi við þessa dómstóla stuðlum við að því að endir verði bundinn á refsileysi þeirra sem brjóta alþjóðalög. Það eru nefnilega bein tengsl á milli mannréttindabrota og svokallaðs refsileysis. Mannréttindabrot sem framin eru í skjóli refsileysis virðast endurtaka sig og það er hægt að greina ferli ofsókna og glæpa í samfélögum sem ákveða að þegja slíkt í hel. Þetta hefur margoft komið fram, t.d. hjá mannréttindasamtökunum Amnesty og þau hafa getað staðfest að bein tengsl eru á milli mannréttindabrota og svokallaðs refsileysis.

Þegar mannréttindabrot eru framin í skjóli refsileysis í samfélögum sem þegja slíkt í hel eða hylma yfir og hunsa lög og reglur, er það vegna þess að önnur ríki láta sig þetta engu varða. Samt eru ríki samkvæmt alþjóðalögum skuldbundin til þess að draga stríðsglæpamenn eða aðra sem gerast sekir um mannréttindabrot til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar. Sömuleiðis má framselja þá. En ríkisstjórnir hafa víða komist upp með að setja lög sem tryggja náðun brotamanna eða gefa þeim grið. Þess vegna er það svo mikilvægt að Íslendingar sem, eins og ég hef oft áður sagt, eiga að vera rödd mannréttinda á alþjóðavettvangi, styðji með virkum hætti stofnun alþjóðaglæpadómstóla svo hægt sé að binda endi á það refsileysi sem ég hef gert hér að umtalsefni.

Það kemur fram í greinargerð með þessari till. til þál. að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn muni hafa það verkefni að dæma í málum einstakinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði, og þess vegna sé stofnun dómstólsins tvímælalaust eitt mikilvægasta framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Undir þetta vil ég taka.

Herra forseti. Það er nokkurt umhugsunarefni að eitt þeirra vestrænu ríkja sem við lítum til í svo mörgum efnum og sem hefur náð langt á vissum sviðum í lýðræðisátt, Bandaríkin, hafa samt verið með einhvern böggling í sumum málum. Við horfum til þess að Bandaríki Norður-Ameríku eru eitt fárra ríkja sem enn þá eru með dauðarefsingu og að þeim er mjög lagt að endurskoða þau ákvæði. Og svo kemur það fram í þessari greinargerð að Bandaríkin lögðu megináherslu á það þegar verið var að afgreiða þessa tillögu að þegnríki sakbornings yrði að veita samþykki sitt í hvert skipti til að lögsaga dómstólsins yrði virk, en samkvæmt því yrði ekki unnt að lögsækja bandaríska hermenn nema með sérstöku samþykki Bandaríkjanna. Ef öll ríki sem væru að fullgilda þessa samþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn mundu vera með fyrirvara af þessum toga þá má reikna með að dómstóllinn yrði ærið veikur og gæti ekki framfylgt þeim verkefnum sem honum eru falin með alþjóðasamþykkt og á alþjóðavettvangi. Mér finnst þetta vera mikið umhugsunarefni.

Ég vil endilega nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. utanrrh. út í alþjóðaglæpadómstóla Júgóslavíu og Rúanda. Mér skilst að stuðningur við þá komi ekki formlega hingað inn í þingið eða sem fullgilding. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. hvort Ísland hafi sýnt því virkan stuðning að báðir þessir stríðsglæpadómstólar yrðu fullgiltir og fengju þann styrk sem þeir þurfa á að halda. Ég þekki ekki nægilega vel hvernig stuðningur við þá dómstóla fer fram og spyr því hæstv. utanrrh. að því hvernig þau mál standi og um afstöðu Íslands gagnvart þeim.

Það kemur fram í lok greinargerðarinnar að Norðurlöndin hafa haft með sér samráð um undirbúning fullgildingar Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, enda málið bæði flókið og umfangsmikið, og að fullgildingin kalli á löggjöf um framkvæmd hennar hér á landi og að unnið sé að henni.

Um þessi lokaorð í greinargerðinni vil ég segja fyrir hönd Samfylkingarinnar að við munum styðja það þegar hæstv. ráðherra kemur með frumvörp sem lúta að þessari samþykkt og ég vil líka draga sérstaklega fram, af því við erum búin að ræða norrænt samstarf hér fyrr í dag og hversu margar hliðar séu á því, að hér er ein hlið þess að Norðurlöndin hafa haft með sér samráð í þessu flókna og umfangsmikla máli og enn á ný í einu máli sem alls ekki er tengt Norðurlöndunum komum við að því hve mikilvægt það samstarf er.