Upplýsingalög

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 15:46:17 (6037)

2000-04-06 15:46:17# 125. lþ. 94.12 fundur 564. mál: #A upplýsingalög# (persónuvernd o.fl.) frv. 83/2000, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996, og fleiri lögum sem forsrh. hefur lagt fyrir Alþingi, en ég hef hér framsögu fyrir í fjarveru hans eins og þegar hefur komið fram hjá hæstv. forseta.

Megintilgangur frv. er að laga upplýsingalögin að frv. því er Alþingi hefur nú til meðferðar um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og tryggja að ekki verði hallað á þann rétt sem almenningi hefur verið veittur til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum með upplýsingalögum. Hið sama á að sínu leyti til um aðgang aðila máls að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, en þau þarfnast þó miklu minni breytinga við. Að auki er í frv. þessu leitað eftir nokkrum breytingum til að bæta starfsskilyrði úrskurðarnefndar um upplýsingamál en að því verður nánar vikið síðar.

Hv. allshn. Alþingis hefur nú til meðferðar frv. til nýrra heildarlaga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Er því frv., ef að lögum verður, m.a. ætlað að koma í stað gildandi laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga sem í daglegu tali eru nefnd tölvulög. Gildissvið hinna nýju laga verður hins vegar víðtækara en tölvulaganna að því leyti að það tekur yfirleitt til hvers kyns persónuupplýsinga án tillits til þess í hvaða formi þær eru varðveittar, en gildissvið tölvulaganna hefur verið einskorðað við persónuupplýsingar sem eru kerfisbundið færðar í skrá.

Þessi takmörkun eða afmörkun réttara sagt á gildissviði tölvulaga eftir því á hvaða formi upplýsingar eru varðveittar hefur hins vegar einnig verið nýtt í öðrum tilgangi, þ.e. til þess að draga mörkin á gildissviði þeirra laga gagnvart upplýsingalögum.

Þegar að því kemur að leysa úr beiðnum um aðgang að persónuupplýsingum hjá hinu opinbera hefur lagagrundvöllur slíkra úrlausna þannig ráðist af því á hvaða formi þær eru varðveittar. Hafi þeim kerfisbundið verið safnað í skipulagslega heild, þ.e. skrá, hefur borið að leysa úr beiði um aðgang að þeim á grundvelli tölvulaga, en sé svo ekki hafa upplýsingalögin tekið við og eftir atvikum stjórnsýslulög.

Með því að ný lög um persónuvernd gera ekki ráð fyrir að halda í þessa afmörkun á varðveisluformi upplýsinga sem þau taka til ber hins vegar nauðsyn til að endurskoða þær reglur sem gilt hafa um lagaskil milli tölvulaga annars vegar og upplýsingalaga hins vegar. Að athuguðu máli hefur niðurstaðan orðið sú sem fram kemur í þessu frv. og felst gagnvart upplýsingalögum í því að sama lagaskilaregla og fólgin hefur verið í gildissviði tölvulaga er nú færð inn í upplýsingalögin, sbr. 1. gr. frv., á þann hátt að þau taka ekki til aðgangs að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nema þær séu varðveittar í því formi sem lýst er í 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga.

Í þeirri grein upplýsingalaga er inntaki upplýsingaréttarins síðan lýst á þann hátt að lögin ná til hvers kyns gagna í vörslu stjórnvalda að undanskildum skrám sem þau halda. Með þessu móti er í raun haldið í þau hin sömu lagaskil milli upplýsingalaga og nýrra laga um persónuvernd sem ég hef þegar lýst hvernig gilt hafa á milli hinna fyrrnefndu laga og tölvulaga. Verði frv. þetta að lögum verður því engin breyting þar á.

Að þessu mæltu, herra forseti, ber að leggja áherslu á að lagaskilareglur af þessu tagi eru formlegar og skipta í þessu tilliti fyrst og fremst máli við ákvörðun um á hvaða lagagrundvelli ber að leysa úr beiðni um aðgang að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Efnisreglur allra þeirra laga sem hér hafa verið nefnd til sögunnar um aðgang að þeim upplýsingum sem hér er um að ræða, þ.e. hinum svonefndu persónuupplýsingum, eru hins vegar allar keimlíkar og líklegt að þær leiði yfirleitt til svipaðrar niðurstöðu. Eðli máls samkvæmt er aðgangur að þeim vitaskuld verulegum takmörkunum háður án þess að ég ætli mér lengra út í þá sálma hér enda engar slíkar efnisreglur að finna í þessu frv.

Aðrar breytingar á upplýsingalögum í frv. þessu miða að því að styrkja og styðja þau starfsskilyrði sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál eru búin samkvæmt lögunum. Þar er um að ræða nefnd sem komið er fót með V. kafla upplýsingalaga til að þjóna sem kærustig fyrir ágreining um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögunum, hvar sem hann kann að rísa í stjórnsýslunni.

Í þessu samhengi er e.t.v. rétt að rifja upp, herra forseti, að upplýsingalög voru samþykkt hér með tiltölulega almennt orðuðum og matskenndum takmörkunar- og undanþágu\-ákvæðum. Það hefur því verið ákaflega mikils virði, bæði fyrir stjórnvöld og almenning, að fá úrlausn eins og sama stjórnvaldsins um það hversu langt þessar takmarkanir verða taldar ná í hverju tilviki. Það hefur bæði aukið samræmi í framkvæmd laganna og hraðað því að það kæmist á. Það er einnig óhætt að segja að almenningur hafi óspart nýtt sér þetta úrræði þegar til þess er litið að nefndin hefur kveðið upp yfir 90 úrskurði á þeim þremur árum sem hún hefur starfað. Hér er lagt til að betur verði að starfsskilyrðum nefndarinnar búið í nokkrum atriðum án þess þó að um raunverulegar breytingar sé að ræða nema í einu tilviki.

Í 2. gr. er lagt til að tekið verði í lögin ákvæði um þagnarskyldu nefndarmanna og þeirra sem með henni starfa en ekkert slíkt ákvæði hefur verið í lögunum sjálfum svo undarlegt sem það má nú vera. Ég legg áherslu á að þessi viðbót er eingöngu lögð til í öryggisskyni, en er algjörlega nauðsynleg. En rétt er að taka fram að það er ekkert sérstakt tilefni sem hefur gefist til þess enda hefur verið litið svo á að sú þagnarskylda sem lögð er á þá sem taka að sér opinbert starf samkvæmt almennum hegningarlögum hafi tekið til nefndarmanna í þessari nefnd, eins og fram kemur í athugasemdum með frv. En vegna sérstöðu þessa máls þykir rétt að ítreka það í þessum lögum, en almennt er afar mikilvægt að þagnarskylda sé virt bæði í þessum tilvikum og öllum öðrum án þess að það eigi að standa í vegi fyrir nauðsynlegum upplýsingum á grundvelli ákveðinna reglna til almennings í landinu.

Þá er í 3. gr. lagt til að tekið verði í lögin sérstakt ákvæði um skyldu stjórnvalda til að afhenda nefndinni þau gögn er hún fjallar um hverju sinni enda getur hún yfirleitt ekki metið rétt til aðgangs að þeim nema ljóst sé hvers efnis þau eru. Þessa reglu hefur að vísu mátt leiða af kærusambandi við nefndina og skyldur hennar eins og annarra stjórnvalda til að upplýsa mál áður en ákvörðun er tekin samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Í stöku tilvikum hafa stjórnvöld hins vegar reynst treg til að afhenda nefndinni þau gögn sem um ræðir án nánari útskýringa og röksemdafærslu af þessu tagi. Því er lagt til að sérstakt ákvæði um þessa skyldu verði tekið í lögin sjálf svo sem til hægðarauka fyrir störf nefndarinnar enda verður sama skylda leidd af almennum reglum eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.

Í 4. gr. er komið á ákveðnu nýmæli þar sem lagt er til að úrskurðir nefndarinnar um aðgang að gögnum eða afrit af þeim verði aðfararhæfir. Ef úrskurðarnefnd hefur úrskurðað að beiðni um aðgang að gögnum skuli tekin til greina og stjórnvald óskar ekki eftir að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað til að bera hann undir dómstóla ber stjórnvaldi samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laganna að veita aðgang að viðkomandi gögnum jafnskjótt og úrskurður hefur verið birtur. Lögin hafa fram til þessa ekki búið þeim sem fær slíkan úrskurð nein tækifæri til að sækja þann rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. Hér er lagt til að úr því verði bætt þannig að hægt verði að leita atbeina sýslumanns í því skyni enda þótt ekki sé reiknað með að til þess komi nema í algjörum undantekningartilvikum.

Fram til þessa eru þess engin dæmi að stjórnvöld hafi ekki hlítt úrskurðum nefndarinnar eða borið þau undir dómstóla ella. Í stöku tilviki hefur þó borið við að stjórnvöld hafa dregið að veita aðgang samkvæmt úrskurði, jafnvel svo að yfir því hefur verið kvartað við umboðsmann Alþingis. Í áliti sínu af því tilefni brýndi hann fyrir stjórnvöldum nauðsyn þess að ákvæði laganna þetta varðandi væru virt og er sú réttarbót sem hér er lögð til til þess fallin að stuðla að því.

Loks er í 5. gr. lögð til minni háttar bragarbót á 18. gr. laganna til að ekki valdi vafa frá hvaða tímamarki beri að telja frest til að stefna úrskurði fyrir dómstóla, en ákvæðið hefur reyndar þegar verið skýrt með sama hætti í einum dóma Hæstaréttar.

Herra forseti. Ég hef þá farið yfir öll helstu atriði þessa frv. og vil að öðru leyti vísa til athugasemda sem því fylgja til nánari skýringar. Frv. má að flestu leyti heita tæknilegs eðlis sem fara má betur yfir í þeirri nefnd er málið fær til meðferðar, þ.e. hv. allshn. Ég legg því til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.