Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 16:25:38 (6040)

2000-04-06 16:25:38# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikil einföldun að ætla sér að kenna því kerfi um, eins og hv. þm. sagði hér, hvernig til hefur tekist í sauðfjárræktinni. Þar er náttúrlega fyrst og fremst um að ræða mikla breytingu á lífsháttum Íslendinga, mikla breytingu í mataræði og ekki hefur tekist nægilega vel til að aðlaga þessa grein breyttum aðstæðum. Með þessu eru sköpuð skilyrði til þess og það eru sköpuð skilyrði líka til þess að greinin geti sótt fram á nýjan leik.

Að því er varðar gæðastýringarkerfið sem hv. þm. kom inn á, þá er alveg ljóst að þegar þetta frv. hefur verið samþykkt og samningurinn kominn á munu margir bændur standa á mikilvægum vegamótum í lífi sínu. Þeir þurfa þá að ákveða hvort þeir vilja breyta til, selja greiðslumark sitt og fara til annarra starfa. Margir þessara bænda eru komnir á allháan aldur og standa frammi fyrir slíkum ákvörðunum á næstu árum og þeir verða náttúrlega að meta hvort þeir treysta sér til að taka þátt í því að gangast undir þetta gæðastýringarkerfi og sækja fram á þeim grundvelli eða hvort réttara sé fyrir þá að hætta. Ég tel að allir bændur geti tekið þátt í þessu og verði ekki í neinum vandræðum með það. Ég er alveg sammála hv. þm. að ef einhverjir þeirra standast ekki þessar kröfur til frambúðar munu þeir vera í vondum málum og þeir munu ekki þola það. En það verður að vera einhver hvatning í þessu, hvatning til breytinga og auðvitað tökum við einhvers staðar áhættu. Við getum ekki tryggt hverjum og einum fullnægjandi niðurstöðu í þessu sambandi og ég veit að hv. þm. skilur það mjög vel.