Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:03:51 (6049)

2000-04-06 17:03:51# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem til þess að þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir jákvæð viðbrögð. Ég fagna því að hann muni vinna vel ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni með stjórnarliðum að því að ljúka farsællega þessari lagasmíð sem við stöndum frammi fyrir.

Það er rétt sem hann segir að stjórnarandstaðan hefur ekki haft aðstöðu til þess að koma að málinu. Ég hygg að það sé bara eðlilegt samningaferli. Aðrir en samningamenn komu ekki beinlínis að málinu, ekki heldur stjórnarliðar. Hins vegar gátu allir fylgst með hvernig gekk, a.m.k. með öðru auganu. Ég minnist þess að við hv. þm. Einar Már Sigurðarson vorum galvaskir og brosandi báðir tveir við setningu búnaðarþings, þar var náttúrlega ýmislegt um þessi mál fjallað, og á fleiri fundum þar sem samtök bænda, einkum sauðfjárbænda, hafa haldið fundi, t.d. landsfund sinn í desemberbyrjun ef ég man rétt.

Hann spurði um og velti fyrir sér þessu með ráðstöfun beingreiðslna með tilliti til byggðasjónarmiða eins og kemur fram í ályktun Alþingis, stefnumótandi byggðaáætlun, sem ríkisstjórnin lagði fram á síðasta þingi. Það er alveg rétt að Alþingi hefur ályktað í tvígang um að sauðfjárrækt sé stunduð öðrum þræði til þess að styrkja byggð og til þess að halda byggðinni uppi. Það er erfitt að greina á milli byggðasjónarmiða og sauðfjárræktar. Það er alveg rétt. En auðvitað er byggð einnig styrkt með ýmsum öðrum hætti en með sauðfjárrækt.

Síðan vil ég fagna því að hv. þm. er búinn að finna spámann þar sem Egill Jónsson á Seljavöllum er, fyrrverandi þingmaður. Hann hefði betur áttað sig á því fyrr og fylgt Agli undanfarna áratugi.