Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 17:12:56 (6053)

2000-04-06 17:12:56# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Þessar lagabreytingar miða að því að uppfylla samning sem er fskj. með frv., samning um framleiðslu sauðfjárafurða.

Núna stendur yfir atkvæðagreiðsla meðal bænda um þennan samning og það er ekki ljóst hvernig atkvæðin muni falla. En það er ljóst að bændur treysta á að þeir séu að greiða atkvæði um þann samning, um þær lagabreytingar sem við erum hér að fjalla um. Það er ekki hægt að skrifa undir svona samning nema með fyrirvara um samþykki bænda og samþykki þingsins. Öðruvísi verður það ekki gert. En það er líka ljóst að menn telja að lengra verði ekki komist. Samningurinn hefur að mörgu leyti verið sniðinn eftir óskum bændastéttarinnar og ekki hefur komið fram mér vitandi óánægja með einhvern einstakan þátt samningsins. Bændur eru ekki allir ánægðir í sjálfu sér með þennan samning. En þeir eru óánægðir á mismunandi forsendum eftir því hvernig málið snýr að hverjum og einum. Búskapur bænda er misjafn og þessi samningur kemur til með að snúa mjög ólíkt að hverjum bónda fyrir sig og þannig mótast hans viðhorf. Það er því ekkert eitt atriði í þessu sem stendur upp úr þannig að hægt sé að segja að erfitt sé að knýja fram þennan samning á þingi því að bændur séu óánægðir með eitthvert eitt atriði. Það er ekki þannig.

[17:15]

Samningurinn er gerður til sjö ára. Það er nauðsynlegt að gera slíka samninga til langs tíma. Menn í búskap sem og í sjávarútvegi verða að vita nokkur ár fram í tímann við hvað þeir eiga að búa, að hverju þeir eiga að aðlaga sinn búskap. Forsenda samningsins er að innanlandsframleiðslan verði svipuð því sem hún er í dag út samningstímabilið. Við það er samningurinn miðaður.

Það er því áhyggjuefni að sjá ekki í samningnum hvatningu til markaðsaukningar eða átaks til að auka neyslu íslensks lambakjöts á innanlandsmarkaðnum eða í það minnsta að það komi fram í samningnum að það eigi að sporna við frekari samdrætti í innanlandsneyslunni.

Ég ætla ekki að fara yfir hvert einasta atriði samningsins. Mig langar bara í nokkrum orðum að segja það sem mér býr í brjósti um helstu þætti. Það er stefnt að uppkaupum á 45 þúsund ærgildum næstu þrjú árin. Bændur hafa því næstu þrjú ár til að aðlaga sig þessum samningi og þau ár munu segja okkur töluvert um það hvernig sauðfjárbúskapurinn verður í nánustu framtíð því að uppkaupin eru hugsuð þannig að á fyrsta árinu fær bóndinn hæsta verð fyrir hvert ærgildi en síðan fer það stiglækkandi.

Ég veit að margir bændur bíða eftir þessum samningi til að losna úr þeim aðstæðum sem þeir búa við í dag. Ég vona að það séu frekar eldri bændurnir en ungir. Það er illt til þess að hugsa að bændur vilji losna úr búskap en vegna aðstæðna geti þeir ekki selt eða hætt búskap. Það er því örugglega góð lausn fyrir þó nokkra bændur að fá þennan uppkaupsrétt og margir munu örugglega nýta sér hann fyrsta árið og fá þannig sem mest fyrir sinn kvóta.

Ég tek undir með þeim sem hafa áhyggjur af því að sjá ekki fyrir hvernig byggð þróast við þessi uppkaup. Auðvitað hefur það að segja þegar fækkar í sveitum og fækkun fólks hefur áhrif á búskapargetu þeirra sem eftir verða. Þetta hefur áhrif á möguleika annarra sauðfjárbænda þó svo að þeir geti keypt upp kvóta, geti haft arðbærari bú því að með fækkun í sveitinni verður erfiðara að stunda smalamennsku. Félagslegi þátturinn verður líka erfiður ef það fækkar í sveitum þannig að það er ekki eingöngu rekstur sauðfjárbúanna sem kemur til með að skipta sköpum í framtíðina heldur líka þessi félagslegi þáttur. Þetta er áhyggjuefni. Þessi samningur hjálpar bændum sem vilja hætta, en síðan verður maður bara að vona það besta og að það verði gripið inn í með einhverjum hætti ef í ljós kemur að í óefni stefnir.

Þessi uppkaup eru ekki eingöngu út úr greininni heldur er meiningin að úthluta hluta þessara ærgilda aftur til þeirra bænda sem vilja stækka við sig, fara í gæðastýringu og gera búin sín rekstrarhæfari. Þessi 45 þúsund ærgildi hverfa því ekki alfarið út af markaðnum á þessum þremur árum.

Eftir 2004 verður um frjálst framsal að ræða og það er bara opin bók. Við vitum ekki hver þróunin verður. Það er reynt að hafa áhrif á búsetuþróunina að hluta til með þessum álagsgreiðslum, þ.e. gæðastýrðri framleiðslu, þar sem á að taka tillit til jarðagæða. En það ákvæði er samt svo veikt í samningnum að það ræður ekki uppkaupum. Þessi gæðastýrða framleiðsla er ekki eftir sömu reglum og önnur gæðastýrð framleiðsla. Þetta er alveg sérstakt. Ég veit ekki hvað á að kalla þetta. Þetta er alveg sér pakki sem búinn er til til þess að við getum með góðum huga hvatt bændur til að fara í annað framleiðsluferli en margir þeirra viðhafa í dag. Margir þeirra hafa tekið þetta upp eða svipað kerfi og fylgjast vel með og eru góðir bændur. Það er verið að hvetja aðra til þessarar breyttu hugsunar, breytts verklags, aukinnar fagmennsku.

En í þessu segir ekkert að það skuli vera ítala á búunum, að það skuli vera algjörlega bundið hvað hver bóndi hefur margt fé miðað við hvernig ástand jarðarinnar er. Það á að stefna að því. En það er ekki hægt að banna bónda --- ég get ekki lesið það út úr þessum samningi --- sem hefur ekki nægilega góð afréttarlönd að auka kvóta sinn og hafa fleira fé. Þó andi gæðastýringarinnar segi til um að hann skuli taka tillit til og bæta jörðina þá sé ég ekki að hægt sé að koma í veg fyrir að bændur sem ekki hafa nægilega góð afréttarlönd eða beitilönd, auki við sig.

En vissulega er hægt að nota þessa gæðastýringu til þess að fá betri nýtingu afurða og koma á hagræðingu í rekstri og auka kynbætur. Og það er hægt að nota þessa gæðastýringu sem tæki til að breyta hugsunarhætti bænda til að stýra framleiðslunni inn í lífræna framleiðslu. En því miður, segi ég, fyrir okkur öll og ekki síst bændurna sjálfa var það skref ekki stigið að nota þessa gæðastýringu sem hluta af ferli inn í lífræna ræktun því að möguleikar okkar á að efla sauðfjárrækt í landinu hljóta að byggjast á því, og hafa alltaf gert, að auka útflutning. En við náum ekki að auka útflutning og hækka verðið nema við séum með framleiðslu sem hefur lífrænan stimpil. Annað er bara tilbúningur. Eitthvað sem heitir vistvænt, eitthvað sem heitir heilnæmt og gott íslenskt, er ekki til. Ef við ætlum að auka markaðssetningu til útflutnings þá verður afurðin að vera stimpluð sem lífrænt ræktuð.

Því harma ég að þetta fyrsta skref skuli ekki hafa verið notað sem ákveðið ferli með möguleika á að hefja lífræna ræktun. Það er enginn hvati í samningnum fyrir bændur til að hefja lífræna ræktun. Það er engin áætlun sem segir að stefnt skuli að því að árið 2007 skuli einhver prósent, segjum bara 5%, bænda hafa hafið lífræna ræktun. Það eru engin markmið til lífrænnar ræktunar sett fram. Það finnst mér miður þegar við horfum til útflutnings.

Samningurinn miðast við það að halda innlenda markaðnum og þá verðum við að gera eitthvað til þess að halda honum. Það kostar peninga og það kostar áhuga sláturleyfishafa og annarra að markaðssetja kindakjötið innan lands. En því miður eru heldur ekki til neinar aðgengilegar tölur sem skýra það hvernig varan er markaðssett, hversu há prósenta af kjötinu er þiðin fyrir neytandann, hversu há prósenta er bara í heilum og hálfum skrokkum og hversu há prósenta er í frystiborðunum.

Það er orðið þannig hjá fjölskyldum í dag að það er lítill fyrirvari og undirbúningur fyrir matseldina. Það þarf að vera hægt að grípa einn pakka af góðu kindakjöti alveg eins og maður grípur einn pakka af svínakjöti eða ófrosnum kjúklingum. Ef við ætlum að halda núverandi stöðu kindakjöts á markaði þá verður eitthvað að breytast í markaðssetningunni.

Ég ætla að vona að gæðastýringin hafi jákvæð áhrif. Það tekur tíma að sanna sig. En það má líka koma með varúðarorð. Þetta gæðastýringarkerfi getur líka orðið dýrt. Það getur líka orðið bákn. Það á að hafa það í huga strax frá upphafi að það verði ekki eitthvert ógurlegt bákn sem verði bæði dýrt og flókið.

Herra forseti. Að lokum vil ég helst segja um þennan samning að hann er flókinn. Það er kannski helsti löstur samningsins að hann er of flókinn. Þegar maður er búinn að lesa hann sér maður að það er óljóst hvert stefnir varðandi búsetu sauðfjárbænda. Það eru engin bein búsetumarkmið í samningnum. Markmiðin eru svona hvetjandi, en ekki bein.