Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:09:55 (6061)

2000-04-06 18:09:55# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:09]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Inntak þessa frv. er nýr samningur um sauðfjárframleiðslu.

Í upphafi er rétt að taka fram að afkoma sauðfjárbænda síðustu ár hefur ekki aðeins verið afar misjöfn heldur líka afar slæm og tekjur í þessari grein hafa oft og tíðum verið langt undir því sem dugir til framfærslu fjölskyldna miðað við fulla atvinnu í greininni.

Þetta er að vísu hluti af þeirri stöðu sem margar byggðir búa við, þ.e. bæði við ótryggt atvinnuástand og litlar tekjur. Það er því erfitt að horfa á sauðfjárræktina aðgreinda frá byggð í landinu og aðgerðir sem lúta að sauðfjárrækt hljóta því líka að skoðast í almennu byggða- og búsetuljósi. Sauðfjárræktin hefur einmitt verið ein sterkasta atvinnugreinin og stoðin við búsetu og landnytjar í hinum dreifðu byggðum þar sem fólk hefur haft takmarkaða möguleika á að stunda aðrar atvinnugreinar.

Þá er og rétt að líta á aðgerðir við sauðfjárræktina í því ljósi að umsvif þar og afkoma hefur mjög sterk og víðtæk áhrif á atvinnu og líf í nærliggjandi þéttbýli og reyndar í atvinnu- og afkomu þjóðarinnar allrar. Því er mjög erfitt að líta á stöðu sauðfjárræktarinnar einangrað heldur ber að líta á hana í þessu ljósi þó svo að sjálfsögðu sé um sjálfstæða atvinnugrein að ræða.

Mikil breyting hefur orðið í búsetu á landinu á undanförnum árum og ljóst er að við blasir enn meiri uppstokkun ekki aðeins á atvinnugreinunum úti um hinar dreifðu byggðir heldur einnig í búsetu.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að víkja að tölum úr Árbók landbúnaðarins og Hagtölum landbúnaðarins sem greina frá búfjáreigendum í einstökum sýslum sem ábúendum lögbýla, hvernig það hefur breyst á árunum 1968--1998. Árið 1968 var tala búfjáreigenda 4.887 en árið 1998 3.557 eða fækkun um rúm 27%. Ef maður lítur á hvar hlutfallsleg fækkun hefur orðið mest þá hefur hún orðið í Gullbringu- og Kjósarsýslu, einmitt þeirri sýslu sem hér er næst. Jafnframt hafa lönd þeirra verið tekin undir undir íbúðabyggingar eða undir verksmiðjur og framleiðslu.

Önnur héruð landsins þar sem mikil fækkun hefur orðið er Barðastrandarsýsla. Þar hefur fækkunin orðið rúmlega 45% á þessum tíma, í Ísafjarðarsýslu um 43%, í Norður-Þingeyjarsýslu um 36% og í Norður-Múlasýslu um 5%. Því er ljóst og þarf ekki að koma á óvart að einmitt þau svæði sem hafa verið greind sem þau svæði sem eiga hvað fæsta valmöguleika í atvinnu og eru mjög háð sauðfjárræktinni hafa komið harðast út í þeim mikla samdrætti sem hefur orðið í sauðfjárræktinni.

[18:15]

Ekki eru mörg ár síðan, ætli það hafi ekki verið árin 1970--1975 að sauðfjáreign landsmanna var í kringum 800 þús. en er nú einhvers staðar í kringum 500 þús. Á árunum 1970--1980 voru miklir uppgangstímar og miklar væntingar en frá 1980 hefur orðið gríðarleg breyting. Ekki er að undra þó þessi mikla skerðing, þessi mikla breyting í atvinnugreininni, hafi áhrif á búsetu í landinu og kjör þeirra sem í greininni starfa.

Það sem mér finnst kannski stærsti ágallinn varðandi samninginn sem við erum að fjalla um er að hann gefur ekki beint nýja sýn. Hann fæst við vanda dagsins að nokkru leyti með tækjum fyrri tíma. Ég skil þann vanda að ná tökum á því sem er að gerast í dag. Engu að síður hefði verið mikilvægt að draga upp sterkari framtíðarsýn í þessum samningi en mér finnst hann veita.

Eins og ég sagði áðan er erfitt að líta á sauðfjárræktina eina og sér. Það verður að horfa á hana sem hluta af byggðamálunum og búsetunni og einmitt þar vantar okkur sýn. Okkur vantar byggða- og búsetusýn, okkur vantar þá sýn eða pólitíska ákvörðun um hvernig við ætlum að byggja landið. Alþingi hefur samþykkt þáltill. og Byggðastofnun hefur gert úttektir og samið tillögur um aðgerðir og stefnu í byggðamálum en þeim hefur ekki verið fylgt heildstætt eftir. Komið hefur verið að einstaka þáttum sem lúta að byggð og búsetu í landinu en ekki með fullum þunga og heildstætt, á það skortir. Sá samningur sem við erum nú með og felur í sér töluvert fjármagn, væntingar og aðgerðir mun því bæði til skemmri og lengri tíma hafa mjög takmörkuð áhrif á byggða- og búsetustefnuna. Þá heildstæðu mynd vantar en þessi samningur á að koma inn í þá heildstæðu mynd.

Það mætti draga sterkar fram landvarðahlutverk þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum. Það mætti benda á mikilvægi þeirra gagnvart öllu atvinnulífi, líka í þéttbýlinu. Það mætti sýna fram á hversu mikilvægur hlekkur þessi búgrein er fyrir fjölbreytt atvinnulíf í sveitum landsins.

Maður veltir einnig fyrir sér þörfinni á ákveðinni byggðastefnu, að tekin sé pólitísk ákvörðun um hvernig við viljum hafa byggð og henni sé fylgt eftir. Það er fullgilt sjónarmið að segja: Byggðin og búsetan sjálf er auðlegð. Það samfélag sem byggir hinar dreifðu byggðir og samfélagsgerðin er líka auðlegð. Það að vera nærtækur, vernda og njóta, leiðbeina um notkun og nýtingu hinna dreifðu byggða og auðlinda náttúrunnar er líka auðlegð. Það gæti verið vert að huga að því sjónarmiði, herra forseti, að byggða- og búsetuaðgerðir af hálfu stjórnvalda ættu að snúa beint að þessum þætti, beint að því sem við höfum tekið pólitíska ákvörðun um. Búseta í hinum dreifðu byggðum landsins er auðlegð og verðmæti og fyrir það viljum við greiða. Fyrir það viljum við taka þátt í að axla kostnaðinn og þá byrðina af því að geta notið þessarar auðlegðar þjóðarinnar allrar.

Ég vil draga þetta inn í umræðuna vegna þess að aðrir sem búa í sveitum landsins, þó þeir stundi ekki sauðfjárrækt eða nautgriparækt, geta líka stundað þar atvinnu og eru mikilvægir fyrir byggð og búsetu landsins. Þeir sem sinna ferðaþjónsutu um sveitir landsins eiga erfitt með að ná inn tekjum fyrir starfsemi sína, jafnmikilvægur hlekkur og þeir eru fyrir ferðaþjónustuna í heild. Þeir eru mikilvægir fyrir allt landið, iðnað og atvinnustarfsemi sem við bindum miklar væntingar við. Ferðaþjónustan er í örum vexti hér á landi og skilar mestri aukningu í þjóðarbúið þrátt fyrir erfiðleika í rekstri, m.a. vegna gengisskráningar.

Fjármagnið sem einmitt þetta fólk er með í að skapa, gróðinn af auðlind þeirri verður að stórum hluta eftir í þéttbýlinu en ég er hræddur um að Ísland yrði ansi lítið ferðamannaland ef ferðaþjónustan um sveitir landsins yrði skorin af.

Þegar við grípum inn aðeins í einn þátt byggðamála þá verður myndin aldrei heildstæð. Það er margir og mörg önnur störf mikilvæg í sveitum til að nýta auðlegð landsins allri þjóðinni til heilla. Þess vegna er ástæða til að styrkja búsetu með beinum aðgerðum. Ég bendi á, herra forseti, hversu mikilvægt er að stefnan í byggða- og búsetumálum sé heildstæð.

Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum í samningnum, þ.e. því lagafrv. sem fer til nefndar og fær þar þá ítarlega umfjöllun. Ég vil t.d. koma að markaðsmálunum. Áður hefur komið fram hér í umræðunum ákveðin gagnrýni á hvernig staðið hefur verið að markaðsmálum fyrir afurðir sauðfjárræktarinnar. Ég tek undir að þar þurfi að gera stórátak, bæði í markaðsmálum og einnig markvisst í rannsóknum og þróun á markaði.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að spyrja starfandi hæstv. landbrh.: Hvað er vitað um störf markaðsráðs kindakjöts, sem starfar, að því er ég held, að markaðssetningu kindakjöts og fær til þess fjármagn? Ég veit að því er ætlað mikilvægt hlutverk og það skilar væntanlega miklu og góðu starfi. Ég tel mikilvægt í þeirri umræðu sem fram fer um málið í nefnd að fram komi ítarleg gögn sem sýni hvað markaðsráðið sé að vinna, hvernig að því er staðið og hverju starfið skilar. Það er mikið að gerast á kjötmarkaðnum, það fer ekki fram hjá okkur. Ekki bara á milli kjöttegunda heldur líka innan kjöttegunda. Við finnum á okkur að markaðurinn og neyslan á dilkakjötinu er að breytast. Þess vegna er mikilvægt að vita hvernig hún er að breytast. Fer meiri hluti sölunnar áfram fram í heilum og hálfum skrokkum, frystum, eða ekki? Hve stór hluti af kjötinu er seldur ferskur árið um kring, þ.e. af því sem slátrað er utan hefðbundins sláturtíma, og hve stór hluti fer ferskur á markað í sláturtíðinni? Hvernig er staðið að markaðssetningu á fersku kjöti? Stefnt var að stórátaki í að markaðssetja ferskt kjöt en hvernig hefur það gengið? Þetta er mjög mikilvægt.

Það er mikilvægt að vita hve stór hluti salan í reyktu kjöti er. Hver er markaðshlutdeild reykta kjötsins eða saltkjötins, unninnar kjötvöru? Það er mikilvægt að vita hvernig íslenskur kjötmarkaður er að breytast og þróast. Hvað er gert til að öðlast vitneskju um hann, sundurliðað og hvernig er unnið að þessari þróun? Maður fær á tilfinninguna þegar kemur að kjötborðinu að ástandið sé tiltölulega óbreytt.

Hins vegar er gleðilegt, herra forseti, að á síðasta ári náðist verulegur varnarsigur í markaðssetningu á dilkakjöti, hverju svo sem það er að þakka. Samdráttur á innanlandsmarkaði var vart merkjanlegur eða liðlega 1% eða 1,6%. Það sýnir að dilkakjötið hefur sterka stöðu þrátt fyrir allt og áfram mjög sterka stöðu á kjötmarkaði á Íslandi. Um það hljótum við einmitt að standa vörð. Ekki standa vörð um það með því að að segja: Borðaðu þetta, borðaðu þetta. Heldur með því hugarfari að neytandinn segi og hugsi: Mig langar í þetta, mig langar í þetta. Þeirri afstöðu þarf að koma betur inn í markaðssetningunni á þessu öllu. Á þessa tilfinningu finnst mér skorta, herra forseti, án þess að ég sé að vega að því sem vel er gert.

Má ég bara benda á eitt, herra forseti, sem hefur áhrif á afkomu greinarinnar? Það eru t.d. viðskipti afurðastöðvanna við smásalana. Afurðastöðvarnar fá afurðalán út á birgðir sínar til að standa undir því að hafa greitt fyrir kjötið. Þær fá út á það lán. Þegar þær selja svo kjötið til smásalanna þarf að greiða afurðalánið við næstu mánaðamót eða innan ákveðins tíma frá því að sala hefur farið fram. Þá verða þær að greiða afurðalánið upp. Þá eru samningar gjarnan með þeim hætti að smásalinn hefur mun lengri greiðslufrest á kjötinu en afurðasölufyrirtækið á að greiða lánið. Þar getur munað allt frá 5--10 dögum upp í 45 daga og jafnvel meira. Afurðasölurnar verða sjálfar að fjámagna greiðslur fyrir kjötið þann tíma. Þetta er kannski tvöfaldur eða þrefaldur sá tími sem kjötið stoppar í matvörubúðunum. Matvörubúðirnar eða smásalarnir geta hafa því haft fjármagnið tvisvar til þrisvar sinnum lengur í sinni vörslu áður en þeir þurfa að greiða afurðasölufyrirtækinu. Afurðasalan verður hins vegar að taka víxil, bera af honum kostnað og greiða vexti af því fé. Vel má vera að þetta teljist eðlilegir viðskiptahættir en þetta er varla til hagsbóta fyrir framleiðsluna. Ég bendi á þetta, herra forseti, því að mér hefur þótt þetta afar ranglátt.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka það sem aðrir hafa látið hér í ljós varðandi gæðastýringuna. Ég tel að á henni sé afar hæpin útfærsla og legg áherslu á að landbn. skoði reglur um gæðastýringu afar vandlega. Mér sýnist þar verið að skapa meiri vinnu fyrir þá sem tékka af bændurna, hvort þeir hafi nú fylgt gæðastýringunni, en hina sem eiga að fylgja henni.