Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:30:15 (6062)

2000-04-06 18:30:15# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:30]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason fór vítt um völl í ræðu sinni. Hann ræddi aðeins um fækkun fólks í landbúnaði í grennd við Reykjavík og sums staðar við mestu þéttbýlissvæði landsins, en ég vil benda á að mest fjölgun á sauðfé á undanförnum árum hefur orðið þar sem bændur hafa aðaltekjur sínar af sauðfjárrækt. Þeir fá nokkra viðurkenningu nú með þessum samningi gegnum álagsgreiðslur. Stuðningur er lagaður nokkuð að núverandi framleiðslu og er miðað við undanfarin þrjú ár. Ég hef vissulega heyrt óánægju hjá ýmsum bændum með þetta, en vegna byggða- og búsetusjónarmiða er þetta réttlætanlegt að mínum dómi. Hitt er rétt sem hv. þm. segir að heildstæð stefna í byggða- og búsetumálum þarf auðvitað að vera fyrir hendi og hún er fyrir hendi því að vorþingið í fyrra samþykkti stefnumótandi byggðaáætlun til nokkurra ára og samkvæmt henni er unnið.

Markaðsmálin eru svo ekki hluti af þessum samningi.

Hv. þm. spurði hvort verið væri að selja neysluvörur, kjötvörur eða hvort væri verið að selja nánast að segja dauðar kindur í pokum eins og var gert. Ríkið á ekki að taka að sér markaðssetninguna. Það hlýtur að vera þeirra sem eru á heildsölustigi, þ.e. afurðastöðvanna og þeirra sem selja kjötið í búðirnar. Markaðssetningarmenn þurfa auðvitað að standa sig og fylgja kröfum tímans. Það er ekki hægt að segja að ríkið eigi að taka á markaðssetningarmálum í þessum samningi.