Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:32:29 (6063)

2000-04-06 18:32:29# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:32]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir þeirri viðleitni sem samningurinn felur í sér um að færa framleiðsluna til þeirra svæða sem eru bæði hagkvæmust til að stunda hana og eru best til þess fallin, þó svo að ég telji að í samningnum felist að vísu allt of takmarkaðir möguleikar til þess að ná tekjum út úr því. En ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði sem hv. þm. einmitt ítrekaði hér.

Varðandi markaðsmálin og markaðsnefndina þá er ég alveg sammála hv. þm. um að þessir samningar hefðu einmitt ekki átt að fjalla svo mikið um markaðsmálin eða taka inn ýmis atriði sem lúta að þeim eins og gæðastýring eða annað því um líkt. Það hefði átt að vera beinn samningur við ríkið. Það var eitt sjónarmið. En varðandi þá markaðsnefnd sem ég minntist á þá lagði ég áherslu á að hún starfar á ábyrgð landbrh. að ég best veit og þess vegna var ástæða til að sú vitneskja kæmi inn til landbn. í umfjöllun málsins en ekki það að samningurinn eigi að taka tillit til þess. Þetta vildi ég einmitt árétta.

Varðandi stefnuna í byggðabúsetumálum þá er það alveg hárrétt hjá hv. þm. að viljayfirlýsing liggur fyrir en efndirnar vantar.