Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:15:02 (6072)

2000-04-06 19:15:02# 125. lþ. 94.14 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég stóð í þeirri trú að ef tölvunefnd hefði vald til að koma með bindandi úrskurð þá yrði einstaklingurinn, sem kvartar yfir því að hann hafi hafnað að ósekju inni í grunninum, tekinn út úr honum. (Gripið fram í: En ef tölvunefnd neitar?) Það er alveg rétt. ,,Hvað ef tölvunefnd neitar?`` er spurt, þá þyrfti einstaklingurinn eftir sem áður að fara fyrir dómstóla. En ég hefði haldið að þarna væri komin ákveðin trygging fyrir einstaklinginn. Ég skil ekki hvers vegna fólk og hv. þm. eru ekki tilbúnir að verja eða stuðla betur en sem þessu nemur að persónuvernd í landinu. Ég skil það ekki. Mér finnst það vera mannréttindamál.

Ég veit ekki hve langt menn eiga að ganga í að vitna í það sem fram hefur komið frá tölvunefnd í viðræðum um þetta mál við allshn. Ég man ekki betur, og hef það reyndar staðfest hér í pári mínu, en að fulltrúar tölvunefndar hafi bent á að öryggi og innra eftirlit kerfisins kæmi til með að vera að verulegu leyti í reglugerðum. Þeir sögðu það. Ég man ekki betur en að fram hafi komið gagnrýni á að svo væri. Það er reyndar ekkert nýtt að alþingismenn og aðrir hafi gagnrýnt að reglugerðarvaldið sé einum of mikið.

Síðan kom einnig fram hjá fulltrúum tölvunefndar að þeim þætti öryggi og skipulag óljóst í þessum málum. Þeir óskuðu eftir því að alla vega á einhverju stigi yrði kveðið nánar á um öryggisþáttinn gagnvart persónuverndinni í lögunum. Þegar gengið var eftir því hvort unnt væri að gera það var því svarað til að tölvunefnd hefði hvorki mannskap né fjármuni til slíkra verka. Ég man ekki betur.