Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:30:14 (6078)

2000-04-06 19:30:14# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ýmislegt í þessu nál. sé ekkert sérstaklega rökstutt og þar ýmislegt sagt sem hefði e.t.v. mátt kafa betur ofan í en ég ætla að láta það liggja á milli hluta. Ég tel að við sem höfum borið málið fram höfum rökstutt það með margvíslegum rökum, ræðum á Alþingi, með skýrslum, og þingmenn hafa haft aðgang að öllum þeim skjölum.

Ég hef líka sagt í þessu sambandi að þegar upp er staðið er þetta mál fyrst og fremst pólitísks eðlis, hvar við viljum standa og með hverjum við viljum starfa og það hef ég margoft ítrekað.

Ég er þeirrar skoðunar að af þessu máli hljótist til lengri tíma litið margvíslegt hagræði fyrir íslenska þjóð og gefi okkur tækifæri til að taka þátt í þessu samstarfi um langa framtíð og viðhalda þeim nánu samskiptum sem við höfum haft við hin Norðurlöndin á ýmsum sviðum. Það er aðalatriði málsins og um það er ekkert fjallað í skýrslunni enda var ekki ætlunin að nefndin gerði það.

Ég vil ítreka að endanleg niðurstaða mín í þessu máli og það sem ræður ákvörðun minni og væntanlega flestra annarra hv. þm. er pólitísks eðlis. Ég vona að hv. þm. skilji það og virði þá afstöðu.