Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:32:20 (6079)

2000-04-06 19:32:20# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Margt órökstutt í þessu máli, segir hæstv. utanrrh. Er það órökstutt að benda á að við þurfum að setja upp 14 landamærahlið sem sennilega verði 22? Að líklegt sé að flöskuhálsar myndist, er það órökstutt? Þvert á móti, í stuttu máli eru settar fram ýmsar rökstuddar fullyrðingar.

Þetta er pólitísk ákvörðun, segir hæstv. utanrrh. Ég virði það alveg ef honum finnst það vera þessarar pólitísku skoðunar virði að steypa Íslendingum út í þennan kostnað upp á sennilega milljarða og kalla yfir okkur þetta óhagræði vegna pólitísks ásetnings um að tengjast betur Evrópusambandinu. Ég vil benda á að menn hafa líka rætt um pólitík í Bretlandi. Þar hafa menn tekið aðra afstöðu og hafa ekki gengist undir Schengen-samkomulagið enda þótt þeir séu innan Evrópusamstarfsins.

Þess vegna finnst mér vægast sagt svolítið undarlegt af hálfu hæstv. utanrrh. og þeirra sem tala fyrir þessu máli að gæta ekki betur en raun ber vitni hagsmuna Íslendinga, að horfa á hagsmuni íslenskra skattborgara, að hafa í huga og verja hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu. Þess vegna fagnaði ég því á sínum tíma þegar ég frétti að verið væri að gera athugun og úttekt á þessum málum út frá sjónarhóli þessara aðila.

Þegar úttektin og rannsóknarskýrslan liggur á borðinu er hún hins vegar að engu höfð. Okkur kemur þetta ekki við, segja menn, við erum í pólitík hérna.