Vörugjald

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:13:43 (6096)

2000-04-06 20:13:43# 125. lþ. 94.20 fundur 520. mál: #A vörugjald# (fjárhæð gjalds af tilteknum vörum) frv. 103/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:13]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál, enda fæ ég það til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. En ég verð að segja, herra forseti, að þegar hæstv. fjmrh. kemur hér næstum dag eftir dag og mælir fyrir lækkun á sköttum gæti maður haldið að staða ríkissjóðs væri mjög góð og allt í blóma í efnahagslífinu, en við erum að tala um 150 millj. kr. sem ákvæði þessa frv. kosta.

Nú skal ég ekki draga í efa að það getur verið hið besta mál að fella niður vörugjald af rafmagnsvörum, hjólbörum, kakói, poppkorni, salthnetum og vopnum eins og hér er lagt til, en ég hélt satt að segja að við værum núna í þeirri stöðu í efnahagsumhverfinu að ekki væri tímabært að gera þetta eins og nú stendur á í efnahagsmálunum og minni ég þar á aðvaranir sem komu fram hjá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun sem við fórum yfir í gær og ætla ég ekki að endurtaka hér.

[20:15]

En í grg. með frv. stendur:

,,Enda þótt vörugjaldslögin kveði á um heimild innlendra framleiðenda til að fá vörugjald fellt niður af vörum sem notaðar eru sem efnivara í framleiðslu er að mati fjármálaráðuneytisins æskilegt að vörugjaldi verði aflétt af slíkum iðnaðarvörum í áföngum, eftir því sem staða ríkissjóðs veitir svigrúm til.``

Í framhaldi af þessu má spyrja: Af hverju er þetta endilega valið og hvað stendur þá út af í þessum efnum? Þarna er bætt við, herra forseti: ,,eftir því sem staða ríkissjóðs veitir svigrúm til``. Hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin meta það greinilega svo að tímabært sé að fara í þessar skattalækkanir og það er athyglisvert að ríkissjóður hafi svigrúm til þess miðað við mikinn viðskiptahalla og þensluna í þjóðfélaginu. Að öðru leyti mun ég auðvitað skoða þetta mál vel í efh.- og viðskn. og fá mat sérfræðinga á þessu máli.