Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 20:43:08 (6101)

2000-04-06 20:43:08# 125. lþ. 94.21 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[20:43]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé rétt hjá þingmanninum að það hefur ekki verið gert ráð fyrir því í frv. að þeir sem ekki eru fastráðnir starfsmenn fyrirtækja geti hagnýtt sér þennan rétt og þar undir falla að sjálfsögðu verktakar jafnvel þó að þeir séu með fasta samninga við viðkomandi fyrirtæki eða einyrkjar eða hugsanlega ýmsir lausamenn.

En þetta eru atriði sem mér finnst að nefndin eigi að skoða. Getur það verið réttlætanlegt við einhverjar aðstæður að bæta þessum hópum við? Ég sá ekki kost á því þegar við vorum að vinna frv. í ráðuneytinu. Kannski er hægt að finna einhverja leið til þess, útvíkka þetta þannig. Þá væri það auðvitað jákvætt.

Að því er varðar lífeyrismálin þá vil ég sérstaklega fagna undirtektum þingmannsins við áform okkar um að auka lífeyrissparnaðinn í landinu og þar á meðal viðbótarlífeyrissparnaðinn svokallaða. Ég tek undir það að þær upplýsingar sem ég kom hér með um þátttökuna í þessu eru vissulega mjög athygli verðar þó að þær séu kannski ekki hinn endanlegi sannleikur vegna þess að hér er um könnun að ræða en ekki upplýsingar úr launabókhaldi eða slíku.

Þingmaðurinn hefur ítrekað í umræðum, bæði hér áðan og í gær, kvartað og látið í ljós áhyggjur sínar yfir því að sparnaður í landinu sé ekki nógu mikill, það sé þensla og halli sé á viðskiptum við útlönd. Hér er komin ein stór aðgerð til þess að sporna gegn þessu öllu saman, gríðarlega mikilvæg aðgerð. Og þá verður þetta litla frv. sem hér var mælt fyrir áðan um vörugjald auðvitað algjört hjóm. 100 milljónir eða svo skipta engu máli og velta engu hlassi í því stóra efnahagslega samhengi sem við erum að tala um. Launasumman í landinu er á milli 300 og 400 milljarðar kr. og hvert prósent af henni í nýjum sparnaði, eins og við erum hér að ýta undir, er það sem skiptir máli.