Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:05:52 (6105)

2000-04-06 21:05:52# 125. lþ. 94.22 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega hárrétt að virðisaukaskatturinn er mikilvægasti tekjustofn íslenska ríkisins, u.þ.b. 40% tekna ríkisins koma af þessum eina skattstofni og þess vegna er mjög mikilvægt að hann sé í góðu lagi, að framkvæmd hans sé í góðu lagi og eftirlit með innheimtu og annað þess háttar. Við erum áreiðanlega öll sammála um það atriði. Það var af þeim sökum m.a. sem ég ákvað að beita mér fyrir þessari úttekt sem nú liggur hér fyrir og er eins og ég sagði áðan hið merkasta plagg. Ég heyri að hv. þm. er sammála mér um það atriði. Þarna koma fram miklar og gagnlegar upplýsingar, auk þess sem þarna eru gerðar ákveðnar tillögur sem við erum að taka undir með því frv. sem nú er til umræðu. Aðrar breytingar er hægt að gera með reglugerðum eða breytingum á verklagsreglum og ég mun beita mér fyrir því að þær komi til framkvæmda samhliða því að þessi lagabreyting sem hér er lögð til nái fram að ganga.

En að því er varðar hins vegar mannaflaþörfina þá er það rétt, eins og kemur fram í skýrslunni, að virðisaukaskattsskyldum aðilum hefur fjölgað mjög mikið frá því skatturinn tók fyrst gildi. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum mjög verulega, bæði vegna þess að hér er um að ræða öflugt efnahagslíf og fólki fjölgar sem fer út í rekstur, rekstraraðilum fjölgar en því miður líka vegna þess að eitthvað er um gerviverktöku svokallaða, starfsemi sem er í raun launþegastarfsemi en er kölluð eitthvað annað, kölluð verktakastarfsemi. Það þarf að ná utan um slíka starfsemi. En a.m.k. eru hugmyndir um það í skýrslunni að auka mannafla í kerfinu. Ég tók undir það í ræðu minni að á því gæti verið þörf. Verkefni hvers manns við virðisaukaskattsframkvæmdina hafa aukist mikið á undanförnum árum. Hvort það eru nákvæmlega tíu starfsmenn á næsta ári og fimm á hinu árinu, það vitum við að sjálfsögðu ekkert um. Fara þarf betur ofan í þá sálma, en ljóst er að það er arðbær fjárfesting fyrir ríkið að fjölga starfsmönnum við þessi verkefni.