Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:08:00 (6106)

2000-04-06 21:08:00# 125. lþ. 94.22 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það hefur komið skýrt fram að hæstv. ráðherra hefur skilning á því að auka mannaflann við skatteftirlitið og ég vona að því verði fylgt fast eftir við næstu fjárlagagerð. Við tökum umræðu um það þá og vonum að góð lending verði á því af hálfu hæstv. ráðherra.

En hæstv. ráðherra er greinilega staðráðinn í að fylgja eftir þeim tillögum sem hér koma fram frá nefndinni og er það vel. Hæstv. ráðherra nefndi að aðrar breytingar sem nefndin leggur til verði þá gerðar með reglugerð og ég hefði gjarnan viljað og fer fram á það við hæstv. ráðherra að efh.- og viðskn. fái að sjá þær breytingar við meðferð þessa frv. sem hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir með reglugerðarsetningu.