Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:10:24 (6108)

2000-04-06 21:10:24# 125. lþ. 94.22 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða nokkur frv. til laga sem kveða á um breytingar á sköttum, vörugjöldum og virðisaukaskatti. Við erum búin að heyra að lækka á skatta af salthnetum, marmara, skotvopnum, poppkorni, og þetta kemur ofan á skattalækkanir á jeppum. Ákveðið var í gær að lækka dýrustu jeppana um 500--700 þús. kr. í verði, þannig að nú geta menn borðað ódýrt popp í ódýrari jeppum.

Og menn ætla að ganga enn lengra í þessu frv. því samkvæmt því mun ríkissjóður verða af um 100 millj. kr. vegna skattívilnana til veitingahúsa. Það kann reyndar að eiga við ákveðin rök að styðjast að gera þá breytingu til að gera veitingahúsin samkeppnisfær eða hæf við verslanir sem tíðka í sífellt ríkari mæli að senda frá sér tilbúinn mat. Ég kann að samþykkja það.

En hitt vekur athygli mína, þ.e. 1. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um annars konar samræmingu og samhæfingu, því að nú á að fara að skattleggja mötuneyti í stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þetta finnst mér vægast sagt vera afar vafasamur hlutur, að greina þann þátt starfseminnar í opinberum stofnunum frá og setja sérstaklega á hann skatt. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þróunin hefur öll verið í þessa átt á undanförnum árum, að þvinga opinberar stofnanir til að greina sig niður í rekstrareiningar og ef menn síðan koma auga á að samkeppni ríkir á viðkomandi sviði eða sviði þar sem einhver slík eining er starfandi, þá er Samkeppnisstofnun svipstundis sigað á hana og hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin færir hana út á markaðstorgið. Þetta höfum við séð gerast á ýmsum sviðum og menn nýta sér náttúrlega Evrópusamstarfið, hið Evrópska efnahagssvæði, markaðssáttmála Evrópu, til þess að knýja á um slíka þróun.

Auðvitað eru afleiðingarnar stundum ömurlegar. Ég veit ekki hvort menn muna eftir því þegar lítið bæjarfélag var kært fyrir að bjóða upp á ókeypis tjaldstæði, það skerti samkeppnistöðu hótela í grenndinni og bæjarsjóður var þvingaður til að taka gjald á tjaldstæðinu. Það er inn í slíkan farveg sem við erum að fara með samfélag okkar. Og verkstjórinn og ökumaðurinn á þeirri vegferð er hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde. Nú erum við að ræða enn eitt frv. frá honum. Áðan var það poppkornið og marmarinn og byssurnar, í gær voru að stóru jepparnir og nú á að fara að skattleggja mötuneytin hjá ríki og sveitarfélögum.

Ég ætla að leyfa mér að vera á móti þessari breytingu. En ég ætla jafnframt að vekja athygli hv. þingmanna og þjóðarinnar á því hvers eðlis þær breytingar eru sem verið er að ráðast í. Verið er að lækka skattheimtu á stórum, dýrum lúxusjeppum um 500--700 þús. kr., enda er fagnað í bílaumboðunum, veisluhöld eru í Heklu og víðar að sjálfsögðu, þeir eiga svo góða ríksstjórn sem vinna þessi verk fyrir þá. En síðan er tekið til hendinni gagnvart mötuneytunum til að íþyngja opinberri starfsemi sem hefur mátt sæta niðurskurði á ýmsum sviðum enn meira. Og allt er þetta tæknilegt og í samræmingarskyni o.s.frv. Herra forseti. Ég mótmæli þessari 1. gr. laganna.