Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:15:50 (6109)

2000-04-06 21:15:50# 125. lþ. 94.22 fundur 548. mál: #A virðisaukaskattur# (mötuneyti, rafrænn afsláttur o.fl.) frv. 105/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:15]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að hér í kringum Alþingi er fullt af veitingastöðum sem selja mat í harðri samkeppni við mötuneyti, opinber mötuneyti, þar á meðal mötuneyti hv. Alþingis sjálfs. Ég hefði nú gaman af að vita um hve mikið maturinn hjá hv. þm. er niðurgreiddur. Ég hefði gaman af að vita hvað hver máltíð sem ég borga eitthvað 240 kr. fyrir kostar. Hvernig ætlast menn til þess að hinn venjulegi veitingamaður geti staðist slíka samkeppni? Þetta er stórlega niðurgreitt, engir skattar greiddir, enginn eignarskattur, enginn tekjuskattur og enginn virðisaukaskattur. Hvernig ætlaði hv. þm. að standa í slíkum rekstri ef hann þyrfti? Hv. þm. á auðvitað mjög erfitt með að ímynda sér hvernig er að standa í atvinnurekstri því hann hefur aldrei staðið í því sjálfur. En það er ekkert gaman að standa í atvinnurekstri og þurfa að dæla sköttum inn til ríkisins í samkeppni við ríkið.