Tryggingagjald

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:22:42 (6114)

2000-04-06 21:22:42# 125. lþ. 94.23 fundur 550. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður) frv. 102/2000, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tryggingagjald. Frv. er flutt í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að efla lífeyrissparnað landsmanna. Til að auka áhuga og fjárhagslegan ávinning einstaklinga á frekari lífeyrissparnaði er lagt til í frv. að mótframlag launagreiðenda í formi lækkunar á tryggingagjaldi, sem stundum er kallað tíund, verði aukið í allt að 0,4% af gjaldstofni almenna tryggingagjaldsins í stað 0,2% samkvæmt gildandi lögum. Þetta frv. er lagt fram samhliða frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem ég mælti fyrir hér fyrr á fundinum þar sem lagt er til að rýmkaðar verði heimildir launþega til að draga frá tekjum iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda.

Ákvæðum laganna um tryggingagjald var breytt í árslok 1998 þannig að launagreiðendum var gert kleift að leggja til viðbótarframlag fyrir launamenn sem höfðu gert samning um viðbótarlífeyrissparnað í formi lækkunar á tryggingagjaldi sem nam 0,2% af gjaldstofni tryggingagjaldsins. Markmiðið var að auka þjóðhagslegan sparnað og efla lífeyrissparnað einstaklinga. Mótframlaginu var ætlað að vera tíundi hluti fjárhæðarinnar sem launamaður legði til hliðar í lífeyrissparnað.

Eins og nefnt var hér áður sýnir könnun sem nýlega var gerð að um 27% landsmanna taka nú þátt í viðbótarlífeyrissparnaðinum. Í könnuninni var lögð fram sú spurning hvort menn hefðu hug á að auka sparnaðinn í þessu formi ef það væri heimilt. Töldu 44% aðspurðra mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir mundu nýta sér þennan möguleika og verja hærra hlutfalli af skattskyldum tekjum til viðbótarlífeyrissparnaðar. Hækkun á mótframlagi launagreiðenda til viðbótarlífeyrissparnaðar launþega í formi lækkunar á tryggingagjaldi ætti þess vegna að ýta undir framangreindan áhuga almennings á viðbótarlífeyrissparnaði á komandi árum. Það er af þessum ástæðum, herra forseti, sem þetta frv. er flutt. Það þarfnast ekki frekari skýringa enda er það nátengt máli sem ég mælti fyrir hér áðan.

Ég legg til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.