Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 21:42:26 (6121)

2000-04-06 21:42:26# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[21:42]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 86/1996. Með frv. eru lagðar til breytingar á skilyrðum til að stofna til staðfestrar samvistar hér á landi og þau rýmkuð með tilliti til borgara annarra ríkja. Þar sem löggjöf í Danmörku, Noregi og Svíþjóð um staðfesta samvist er hliðstæð íslenskri löggjöf þykir rétt að leggja ríkisborgararétt í einhverju þessara ríkja að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt.

Þá er í frv. heimild fyrir dómsmrh. til að ákveða í reglugerð að ríkisborgararéttur í ríki þar sem löggjöf um staðfesta samvist er hliðstæð íslenskri löggjöf verði lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt með sama hætti og danskur, norskur eða sænskur ríkisborgararéttur.

Lagt er til í frv. að lögfest verði sambærilegt ákvæði og er í dönsku lögunum um staðfesta samvist um að nægilegt sé að báðir einstaklingar sem hyggjast stofna til staðfestrar samvistar hafi átt búsetu í landinu í tvö ár án tillits til ríkisfangs en ákvæðið miðar að því að auka réttindi þeirra sem hér hafa fasta búsetu.

Sambærileg breyting og hér er lögð til hefur þegar verið gerð á dönsku lögunum um staðfesta samvist. Stjórnarfrumvarp sem er efnislega eins og dönsku lögin og þetta lagafrv. er nú til meðferðar í þinginu í Noregi. Í Svíþjóð hefur einnig komið fram stjórnarfrumvarp þar sem lögð er til rýmkun skilyrða til að stofna til staðfestrar samvistar með tilliti til borgara annarra norrænna ríkja.

Loks er í frv. þessu lagt til að bætt verði í 6. gr. laganna málsgrein um að lagaákvæði, sem hafa sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans, gildi ekki um staðfesta samvist. Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðuna þegar þannig hagar til að kynferði maka hefur þýðingu eðli máls samkvæmt. Þetta getur t.d. átt við um feðrun barna, en feðrunarreglur um börn giftra foreldra og sambúðarforeldra í barnalögum geta ekki gilt um staðfesta samvist því að óhugsandi er að kona í staðfestri samvist geti verið faðir barns sem maki hennar elur. Sambærileg ákvæði hafa verið í dönsku og sænsku lögunum um staðfesta samvist frá upphafi. Þetta er eina breytingin sem lagt er til að gerð verði á 6. gr. laganna.

[21:45]

Ég minni á að í umræðunni um heildarlög um ættleiðingar sem var til meðferðar í þinginu fyrir áramót þá lýsti ég því yfir að frv. til breytinga á lögum um staðfesta samvist væri í undirbúningi í dómsmrn. Nú hefur það verið lagt fram. Þá lét ég þau orð jafnframt falla að þá gæfist tilefni til þess fyrir Alþingi að skoða sérstaklega stöðu þeirra sem eru í staðfestri samvist með tilliti til stjúpættleiðinga. Á það má benda að danski dómsmrh. hafði sama háttinn á. Hann lagði fram frv. um staðfesta samvist en taldi rétt að láta þinginu eftir að móta reglur um ættleiðingu.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á að við Íslendingar höfum verið í fararbroddi við að tryggja réttarstöðu barnafólks í staðfestri samvist með því að lögfesta reglu um sameiginlega forsjá með börnum foreldris í staðfestri samvist fyrst allra ríkja og að við stöndum enn fremstir að því er þetta varðar, að Danmörku einni undanskilinni.

Herra forseti. Ég hef nú í aðalatriðum rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.