Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:01:31 (6124)

2000-04-06 22:01:31# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:01]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var mér fullkomlega meðvituð um það samkomulag sem gert var í allshn. og ég hef ekki verið að kalla eftir breytingum á ættleiðingalögunum. Ég hef hins vegar bent á að fram hefur komið frv. til laga um breytingar á lögunum um staðfesta samvist þar sem reynt er að nálgast það markmið sem ég veit að meirihlutavilji þingheims, ef ekki alls, stendur til, þ.e. að stjúpættleiðingar verði leyfðar.

Það sem ég var fyrst og fremst að kalla eftir var hvað fælist í 2. gr. Á hvað opnar hún? Spurningin er þessi: Af hverju kemur hæstv. ráðherra ekki með frv. um það efni sem menn hafa gert ákveðið samkomulag um að yrði lögfest, af hverju er það nefndin sem á að leggja það til? Þetta er bara þingtæknilegt atriði og þetta er líka spurning um hver á að hafa frumkvæði að slíkum málum. Ég skil ekki alveg af hverju hv. Alþingi á að móta reglur í þessum efnum. Út af fyrir sig er allt í lagi að það gerist en ég skil ekki af hverju það er svona nauðsynlegt í þessu máli og af hverju ráðherrann kemur þá ekki fram með fullbúnar tillögur sem hægt er að ræða. Spurning er hvort þarna eru einhverjar aðrar skýringar en þær að gera eins og Danmörk vegna þess að það er gott að horfa á hvað grannar okkar eru að gera. Sannarlega megum við taka margt eftir þeim en engin nauðung felst í því og hreint ekki þegar við erum ekki sannfærð um það að leiðin sé rétt og nú er ég að tala um formið miklu frekar en innihaldið.