Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:16:07 (6130)

2000-04-06 22:16:07# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:16]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi fá að segja hér nokkur orð til skýringar vegna ræðu hv. þm. Á síðasta ári voru stjúpættleiðingar einstaklinga í staðfestri samvist heimilaðar með lögum í Danmörku en þó með þeirri undantekningu, eins og hv. þm. gat um, að stjúpættleiðing er ekki heimil þegar svo stendur á að stjúpbarnið hefur verið ættleitt frá öðru landi. Skýringin er sú að nauðsynlegt þótti að gera þessa undantekningu varðandi börn sem ættleidd hafa verið erlendis til að spilla ekki þeim tengslum sem hafa myndast milli Danmerkur og þeirra landa sem börnin koma frá. Ekkert þeirra landa samþykkir svo vitað sé, ættleiðingu fólks í staðfestri samvist. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið til skýringar á þessu lagaákvæði. Eftir því sem best er vitað er Danmörk eina ríkið sem leyft hefur stjúpættleiðingar einstaklinga í staðfestri samvist. Einstaklingar í staðfestri samvist hér á landi fara reyndar, á grundvelli barnalaga, sameiginlega með forsjá barns annars sem er stjúpbarn hins, en sú var ekki raunin í Danmörku áður en framangreind breyting var gerð á lögum um staðfesta samvist.