Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:21:51 (6132)

2000-04-06 22:21:51# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:21]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur með frv. þessu lagt fram breytingar á lögum um staðfesta samvist í þá veru að skilyrði slíkrar samvistar verði rýmkuð. Það er gott og í samræmi við tíðarandann og raunveruleikann. Frv. er svipað og gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum og í frv. þykir því rétt að leggja ríkisborgararétt t.d. í einhverju þessara ríkja að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt svo að staðfest samvist verði heimiluð. Einnig eru búsetuskilyrði í núgildandi lögum rýmkuð töluvert. Þetta eru allt framfaraskref.

Sem formaður allshn. vil ég leyfa mér að fagna framlagningu frv. sérstaklega, enda er hún í samræmi við yfirlýsingar sem gefnar voru við umfjöllun þingsins um ættleiðingarlögin fyrir jól. Af umræðum um ættleiðingarlögin á þeim tíma og þeirrar óformlegu umræðu sem allir nefndarmenn hv. allshn. hafa tekið þátt í að undanförnu er ljóst að nefndin kemur til með að taka frv. afar vel. Allshn. gefst þá tækifæri til að taka á stjúpættleiðingum samkynhneigðra og hugsanlega leggja til að þær verði heimilaðar. Þá kemur til kasta þingsins enda gildir þingræðið hér, að meiri hluti Alþingis ræður því hvaða lög eru staðfest, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Breytingarnar eru einnig í samræmi við það land sem við höfum einna helst borið okkur saman við í lagasetningu en það er Danmörk. Það hefur margoft komið fram að í Danmörku eru stjúpættleiðingar heimilaðar og eingöngu í því landi. Þá er ég að tala um stjúpættleiðingar en ekki frumættleiðingar. Því er mjög eðlilegt að við lítum til þess ferlis er viðhaft var í Danmörku og förum þessa leið, að allshn. komi til með að taka á málefnum samkynhneigðra varðandi stjúpættleiðingar.

Í umræðum um ættleiðingarlögin á sínum tíma kom skýrt fram að það var ekki lagatæknilega hægt að koma stjúpættleiðingum fyrir í ættleiðingarlögunum þar sem lögin um staðfesta samvist undanþiggja lögin um ættleiðingar hvort sem er. Því má segja að náðst hafi samkomulag meðal nefndarmanna í hv. allshn. um að geyma þessa mikilvægu breytingu á réttarstöðu samkynhneigðra þar til að frv. sem við ræðum nú um yrði lagt fram. Það hefur nú verið gert, herra forseti, og vil ég þakka fyrir það.