Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:25:31 (6133)

2000-04-06 22:25:31# 125. lþ. 94.19 fundur 559. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (nálgunarbann) frv. 94/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:25]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála og almennum hegningarlögum.

Með frv. er lagt til að lögfest verði sérstakt úrræði til að vernda þá sem hafa orðið fyrir ofsóknum og ógnunum og felst það í því að unnt verði að leggja svokallað nálgunarbann á þann sem veldur ofsóknum eða ógnunum. Í slíku banni felst að sá sem því sætir má ekki koma á tiltekinn stað eða svæði eða ónáða með einum eða öðrum hætti þann sem verndaður er af banninu. Í frv. er lagt til að nýr kafli bætist við lög um meðferð opinberra mála og þar verði kveðið á um skilyrði þess að manni verði gert að sæta nálgunarbanni og um meðferð slíkrar kröfu fyrir dómstólunum. Þá er lagt til að í hegningarlögunum verði mælt fyrir um refsingu þegar brotið er gegn nálgunarbanni.

Frv. sem ég mæli hér fyrir er liður í að bæta réttarstöðu þeirra sem eru þolendur afbrota, en ýmis lög hafa verið sett í sama skyni á undanförnum árum. Hér má helst nefna lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, og lög nr. 36/1999, um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, en með þeim var bætt til muna réttarstaða brotaþola við meðferð opinberra mála.

Þegar á heildina er litið er óhætt að fullyrða að á síðustu árum hafi réttarstaða brotaþola verið bætt til mikilla muna og er hún nú eins og best gerist í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Þó því marki hafi verið náð legg ég ríka áherslu á að áfram verði haldið á þessari braut til að tryggja enn betur öryggi og réttindi borgaranna, þá sérstaklega þeirra sem orðið hafa þolendur afbrota.

Samkvæmt 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að raska friði annars manns með því að ásækja hann, ofsækja hann með bréfum eða ónáða hann á annan svipaðan hátt, þar á meðal með símhringingum, þrátt fyrir áminningu lögreglu. Í framkvæmd hefur refsing sárasjaldan verið dæmd samkvæmt þessu ákvæði og því er ástæða til að draga í efa hvort gildandi lög veiti þeim sem þurfa að þola ofsóknir næga vernd.

Með frv. er lagt til að úr þessu verði bætt og virkara úrræði skapað til að vernda þolendur ofsókna. Þetta felst m.a. í því að lagt er til að brot gegn nálgunarbanni geti varðað þungum viðurlögum, einnig þykja aukin varnaðaráhrif felast í að dómstólum verði falið að leggja á nálgunarbann í stað þess að sá sem veldur ónæði sé áminntur af lögreglu. Með málsmeðferð fyrir dómi er lögð rík áhersla á alvarleika þessara mála og sú málsmeðferð er því frekar til þess fallin að hafa þau áhrif að látið verði af ásókn í garð þess sem njóta á verndar.

Þegar rætt er um nálgunarbann verður ekki litið hjá þvingunareðli úrræðisins og þeim hömlum sem felast í slíku banni. Með lögfestingu nálgunarbanns er í raun verið að takmarka ferða- og athafnafrelsi manna sem varið er af stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasamningum. Á hinn bóginn er viðurkennt að slík réttindi geti þurft að þoka fyrir réttindum annarra þegar veigamikil rök mæla með. Það á við þegar einhver þarf að þola ítrekaðar ofsóknir eða ógnanir sem vitanlega eru meinlegar fyrir viðkomandi og fjölskyldu hans.

[22:30]

Lög sem veita nauðsynlega vernd gegn slíkri áreitni og fela í sér eðlilega takmörkun á athafnafrelsi þess sem henni veldur samrýmast fyllilega stjórnlögum og alþjóðlegum skuldbindingum landsins á sviði mannréttinda. Þó verður að gæta þess að lagaheimildir af þessu tagi gangi ekki lengra en nauðsyn krefur auk þess sem beita verður slíkri heimild með varúð.

Í frv. er lagt til að brot gegn nálgunarbanni varði sektum eða fangelsi allt að einu ári. Ef brot er ítrekað eða stórfellt er lagt til að það geti varðað fangelsi allt að tveimur árum. Þessi refsimörk taka mið af því að brot gegn nálgunarbanni beinist ekki einvörðungu að þeim sem misgert er við heldur felur brotið einnig í sér að virt eru að vettugi fyrirmæli dómara.

Herra forseti. Ég hef nú fjallað um frv. almennum orðum og mun nú víkja að meginákvæðum þess.

Í 1. gr. frv. er lagt til að maður sem krafist er að sæti nálgunarbanni eigi rétt á að fá sér skipaðan verjanda. Hér er haft í huga að krafan um nálgunarbann felur vissulega í sér alvarlega ásökun í garð þess sem hún beinist að því er eðlilegt og í samræmi við sjónarmið um réttaröryggi að viðkomandi eigi kost á að fá sér skipaðan verjanda.

Í 2. gr. frv. er lögð til heimild til að handtaka mann ef hann sinnir ekki að forfallalausu kvaðningu um að mæta fyrir dóm vegna kröfu um nálgunarbann á hendur honum. Nauðsynlegt getur verið að krefja þann sem krafa beinist gegn skýringa fyrir dómi, auk þess sem menn gera sér betur grein fyrir alvarleika málsins þegar þeir eru leiddir fyrir dómara. Það eitt kann að leiða til þess að látið verði af ofsóknum.

Í 3. gr. frv. er lagt til að nýr kafli, XIII. kafli A, með fjórum greinum, bætist við lög um meðferð opinberra mála þar sem fjallað verði um nálgunarbann.

Í a-lið 3. gr. frv. segir hvað felst í nálgunarbanni og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo að dómur geti lagt á slíkt bann. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann, ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á. Þegar metið er hvort þessum skilyrðum sé fullnægt verður að líta til fyrri hegðunar manns sem krafa beinist gegn og samskipta hans við þann sem vernda á með banninu.

Samkvæmt b-lið 3. gr. frv. gerir lögregla kröfu um nálgunarbann en almennt er ekki gert ráð fyrir að slík krafa verði höfð uppi nema eftir beiðni þess sem njóta á verndar. Það er þó ekki skilyrði og því getur lögregla án beiðni krafist nálgunarbanns ef það þykir nauðsynlegt. Hér er haft í huga að sá sem sætir ofsóknum getur verið í þeirri aðstöðu að honum sé ókleift að setja fram slíka beiðni vegna tengsla eða sambands við þann krafa beinist að.

Í c-lið 3. gr. frv. er fjallað um málsmeðferðina fyrir dómi þegar krafist er nágunarbanns. Í ákvæðinu segir einnig að nálgunarbanni skuli markaður ákveðinn tími, þó ekki lengur en eitt ár. Þannig verður nálgunarbann ekki framlengt nema til komi nýr úrskurður.

Í d-lið 3. gr. frv. er síðan fjallað um birtingu úrskurðar og um heimild lögreglu til að fella niður nálgunarbann þegar ástæður þær sem lágu til grundvallar banninu eru ekki lengur fyrir hendi. Einnig segir í þessu ákvæði frv. að lögregla skuli tilkynna þeim sem njóta á verndar með nálgunarbanni um að krafa verði lögð fyrir dóm og um afdrif hennar og lok nálgunarbanns þegar það fellur niður.

Herra forseti. Ég hef nú í aðalatriðum rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.