Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:34:38 (6134)

2000-04-06 22:34:38# 125. lþ. 94.19 fundur 559. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (nálgunarbann) frv. 94/2000, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:34]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Frv. hæstv. dómsmrh. Sólveigar Pétursdóttur um nálgunarbann er mjög merkilegt og gott mál og enn ein réttarbótin sem hæstv. dómsmrh. stendur nú fyrir.

Refsimál sem geta heyrt hér undir eru nokkuð sérstök en geta verið mjög erfið og afar óþægileg fyrir þá sem fyrir slíkum ofsóknum verða svo ekki sé talað um ógnun og það ofbeldi sem oftast er fylgifiskur slíkra athafna. Nálgunarbann getur verið mikilsvert tæki til að hamla gegn því að fólk verði síendurtekið fyrir ofsóknum af hendi tiltekins aðila. Oftast er um heimilisofbeldi að ræða en þolendur þess mun frv. m.a. vernda. Staðreyndin mun vera sú að oftast nær eða undantekningarlítið eru það konur sem verða fyrir þessum ógnunum. Þetta eru því miður allt of tíðir atburðir í íslenskum veruleika en þetta er hlutur sem nauðsynlegt er að horfast í augu við. Það er einmitt gert með þessu frv.

Nálgunarbann getur verið tæki sem gott er að beita til varnar því að einstaklingar verði fyrir þessum endurteknu ógnunum. Hins vegar verða veigamiklar og rökstuddar ástæður eðlilega að búa að baki mati á slíkri ákvörðun um nálgunarbann og því er mikilvægt að dómstólar meti slík tilvik.

Það undirstrikar hins vegar alvöru málsins, eins og hæstv. dómsmrh. kom inn á, að þessi mál fari að kröfu lögreglunnar til dómstóla. Það er einmitt það sem maður vonar að þetta frv. síðan stuðli að, þ.e. að varnaðaráhrif þess verði þau að við sjáum ekki svona brot sem frv. er ætlað að taka til, að það komi í veg fyrir að einstaklingar verði lagðir í einelti með ofsóknum, ógnunum og ofbeldi.