Meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:36:55 (6135)

2000-04-06 22:36:55# 125. lþ. 94.19 fundur 559. mál: #A meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög# (nálgunarbann) frv. 94/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:36]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp í annað sinn í dag, nú út af öðru máli, til að fagna frv. frá hæstv. dómsmrh. Nálgunarbannið hefur verið mikið baráttumál kvennahreyfinga í mörg ár og það hefur tekið langan tíma að koma því á það stig sem það er komið núna. Það kemur raunar fram í athugasemdunum við lagafrv. að fyrst í desember 1993 er skipuð nefnd. Það sem gerir hins vegar síðan útslagið er í rauninni skýrslan frá 1997 um heimilisofbeldi, um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. Frv. er gríðarlega mikilvægt og mjög mikill fengur fyrir alla þá sem þurfa að sitja undir því að þola ofbeldi þannig að það er gríðarleg réttarbót.

Það er líka mjög mikilvægt að lögreglan geti gert kröfu um nálgunarbann, þ.e. að það sé í frv. til viðbótar þannig að það sé í rauninni ekki bara þolandinn sem þurfi að fara fram á nálgunarbannið heldur geti lögreglan líka gert það. Þegar maður veltir þessum málum fyrir sér hefur manni fundist afar sérstakt að talið var að nálgunarbannið takmarkaði frjálsræði þess sem fyrir því yrði. En þá spurði maður sig líka: Hvað með frjálsræði þeirra sem verða stöðugt fyrir þessu ofbeldi, þ.e. kvenna og barna sem búa við slík skilyrði?

Öll þessi sjónarmið hafa því breyst og þroskast með aukinni umræðu og aukinni þekkingu og það verður mjög áhugavert og gaman að ræða þetta áfram í hv. allshn.