Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:50:41 (6147)

2000-04-07 10:50:41# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:50]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er alveg sérstaklega óviðkunnanlegt hvernig þetta mál ber hér inn á þingið og hvernig haldið hefur verið á því.

Auðvitað skiptir það máli að Landsvirkjun fer sínu fram alveg óháð því hvort fyrirtækið hefur lagaramma til þess eða ekki. Og hvaða kjaftæði er það að þegar alþingismenn ætla að ræða hér um það hvort Landsvirkjun hafi haft lagaheimildir til að gera það sem hún hefur verið að gera að þá sé sagt að þingmenn eigi bara að fara fyrir dómstólana og kæra? Hvers lags umræða er farin að vera hér um lagaramma ríkisfyrirtækja á hv. Alþingi?

Þetta mál er búið að vera með eindæmum. En að umfjöllunin við 2. umr. sé með þessum hætti er fullkomlega óviðunandi og við frábiðjum okkur yfirlýsingar, þegar við ætlum að ræða um lagaramma Landsvirkjunar, framkvæmd ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, um það hvort við höldum að við séum á stjórnarfundi í Landsvirkjun. Aðalfundur Landsvirkjunar er reyndar í dag og ég býst við að það verði öðruvísi hallelújasamkoma en verður hér í þessari umræðu.

Herra forseti. Það er eins og einn viðmælandi á fundi nefndarinnar orðaði það: ,,Ríkið er að gleypa markaðinn.`` Það er yfirlýst stefna stjórnarflokkanna að draga úr ríkisafskiptum og því er fullkomlega út í loftið að ríkið fari inn á ný svið, fari inn á ný samkeppnissvið og byrji á því að drepa niður þá einstaklinga og þau einkafyrirtæki sem eru að fóta sig á nýjum markaði. Þetta er að gerast. Þetta hefur verið að gerast á sl. ári. Þetta er Alþingi að lögfesta í dag, eftir á.

Það var afskaplega saklaust frv., virðulegi forseti, sem kom hérna inn í þingið í nóvember. Greinargerðin er heilar sex línur og frv. er nokkur orð. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.``

Þetta var afskaplega létt og lítið frv., sex málsliðir í greinargerð sem fjalla um að eðlilegt sé að starfsemi eins og Landsvirkjun hyggist fara út í verði rekin utan hefðbundins reksturs fyrirtækisins. Framsagan með þessu frv. um stefnumörkun var líka stutt, einföld og innihaldslítil eins og kom í ljós síðar því annað átti eftir að koma í ljós en að hér væri verið að fara fram með stefnumörkun og gefa Landsvirkjun heimild til þess að eiga hlut í fyrirtækjum á markaði.

Hæstv. viðskrh. og iðnrh. var síðan spurð í óundirbúnum fyrirspurnum hvort ráðherrann hafði vitað að það var löngu búið að stofna það fyrirtæki sem hér var verið að skapa lagaheimild fyrir. Og hæstv. ráðherra varð að svara því neitandi.

Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að ráðherra, nýsestur í stól, veit ekki allt. En það er fullkomlega ófyrirgefanlegt af öllum hlutaðeigandi að upplýsa ekki nýjan ráðherra um stöðu mála, um hvernig haldið hefur verið á málum og hvaða mál ráðherrann er í raun og veru að bera hingað inn á Alþingi.

Þetta frv. orðast svo: ,,svo og aðild að fjarskiptafyrirtækjum.`` Í þessu felst að Landsvirkjun ætlar sér að eiga eða stofna tvö fyrirtæki. Annað fyrirtækið á að vera 100% í eigu Landsvirkjunar og á að vera um ljósleiðarann, mikilvægt samskiptanet sem aðeins Landssíminn á. Og jafnframt þessi tvö net, dreifikerfi, þessir tveir ljósleiðarar, eru í dag í eigu okkar, í eigu ríkisins, í eigu landsmanna. Núna er umræða uppi um það hvort selja eigi Póst og síma og hvort ljósleiðarinn eigi að fylgja með. Formaður iðnn., hv. þm. Hjálmar Árnason, hefur komið með yfirlýsingar um það: ,,Aldrei ljósleiðarann.``

Ég vek athygli á því að með þessu frv. telur Landsvirkjun sig vera að fá lagaheimild til að búa til sérstakt fyrirtæki um ljósleiðarann og leigja að honum aðgang vegna þess að þannig er hann verðmætur og þannig skipar Landsvirkjun sér á markað um nýtingu eigna sinna, eigna landsmanna. En þá er líka komið fyrirtæki, að vísu 100% í eigu Landsvirkjunar, sérstakt fyrirtæki sem er annað tveggja. Annað er Landssímans og hitt Landsvirkjunar. Og dettur einhverjum í þessum sal í hug annað en að við séum að sigla inn í þá tíma að Landsvirkjun einkavæði fyrirtækin sem hún er að stofna? Við erum hér að taka stór grundvallarskref hvað varðar það að ljósleiðararnir eigi eftir að fara út á markaðinn, þeir ljósleiðarar og þau dreifikerfi sem við eigum.

Þetta eru engin smámál. Þetta er ekkert mál sem byggist á hálfri setningu og sex línum í greinargerð. Þetta er stórmál. Þetta er stórpólitískt mál og afgreiðslan hér í dag, eftiráafgreiðslan, er ekkert minna en skandall.

Hitt fyrirtækið sem Landsvirkjun ætlar sér að setja á laggirnar er fyrirtæki þar sem Landsvirkjun verður með þriðjungs eignaraðild á móti tveimur öðrum um farsímafyrirtæki. Það er hin hliðin á dæminu og það er það sem felst í þessu.

Ég ætla að leyfa mér að benda á að það kom fram strax held ég við umræðuna um þetta mál, a.m.k. var því hreyft í nefndinni, að það væri vafamál hvort þetta frv. væri í raun og veru að heimila Landsvirkjun að búa til sérstakt fyrirtæki um ljósleiðarann þó það væri 100% í eigu Landsvirkjunar. Við fengum aldrei tækifæri til þess að fjalla um þann þátt í nefndinni, aldrei. Við vorum ekki komin að því þegar þetta mál var rifið út fyrirvaralaust.

Virðulegi forseti. Þetta frv. fékk umfjöllun á tveimur fundum í iðnn. Málið var sent til umsagnar og umsagnarfrestur gefinn til 16. mars. En það var 9. mars, viku áður en umsagnarfrestur rann út, sem hér í Alþingishúsinu var boðaður bráðafundur til þess að taka málið út. Umræðu var lokið, afgreiðsla í nefndinni var búin, umfjöllun var lokið. Hér var meiri hlutinn að neyta réttar síns. Hann tekur málið út.

Ástæðan fyrir því að menn drifu sig í að losa málið úr nefnd 9. mars þrátt fyrir að umsagnarfrestur væri ekki runninn út og vika eftir af honum, var sú að umsóknarfrestur Póst- og fjarskiptastofnunarinnar sem hafði auglýst eftir þeim fyrirtækjum sem óskuðu eftir aðgangi að TETRA-tíðnibandi, var að renna út hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Þann 13. mars rynni sá umsóknarfrestur út og þar með var þetta fyrirtæki sem Landsvirkjun var búin að eignast aðild að komið í vanda vegna þess að engin lög heimiluðu Landsvirkjun að vera þriðjungs eignaraðili að fyrirtæki sem var að leita eftir að komast inn á þetta TETRA-tíðniband hjá Póst- og fjarskiptastofnun.

Þá spurðu menn: ,,Hvernig stendur á því að málið var tekið út eftir tvo fundi í iðnn. á bráðafundi í hádegishléi í Alþingishúsinu og síðan er það að koma til umræðu núna mánuði síðar, 7. apríl árið 2000, og rifið út úr nefnd 9. mars?``

Jú, það er vegna þess að Landsvirkjun áttaði sig á því að þarna var orðin of mikil spenna. Nú voru góð ráð dýr. Og þá gerði Landsvirkjun það sem var búið að segja okkur á fundi í iðnn. að væri það tæki sem Landsvirkjun gripi til, nefnilega að fara tímabundið út úr fyrirtækinu sem var að sækja um TETRA-tíðnisviðið. Svo kemur hún bara inn aftur seinna. Þess vegna er málið búið að liggja í ró hér í nærri mánuð og þess vegna erum við fyrst að ræða það núna.

[11:00]

Herra forseti. Þetta stóra og pólitíska mál, fullyrði ég, er þannig vaxið að Landsvirkjun ákveður að fara á fjarskiptamarkað snemma í fyrrasumar. Ríkisstjórnin fellst á að nýta dreifikerfi Landsvirkjunar á markaði, líka í fyrrasumar. Við skulum átta okkur á því að þetta mál var ekki minna en svo að það var lagt fyrir ríkisstjórnina sjálfa og hún látin fallast á að Landsvirkjun færi á markað, í fyrsta lagi með sitt 100% fyrirtæki um ljósleiðarann og í öðru lagi með sameignarfyrirtækið.

Í framhaldi af þessu kemur svo frv. hingað inn í þingið í nóvember, þetta frv. sem ég var að lýsa, eins fátæklegt og einfalt og hugsast getur. Frv. er hins vegar ekki tekið til umræðu fyrr en í febrúar. Það lá hér í þinginu fram í febrúar. Það var ekki eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar fyrir jól, það var ekki tekið fyrir með fyrstu málum fyrstu dagana í febrúar. Nei, þetta var allt of ljúft og létt og svo einfalt, lítil stutt setning, ekkert mál, engin pólitík, engin vitneskja.

Ég hef þegar greint frá því að frv. var tekið fyrir og sent til umsagnar með fresti til 16. mars. Ýmsir aðilar komu í kjölfarið á fund iðnn. á þeim tveimur fundum sem hún gaf sér til að fjalla um málið. Síðan var málið tekið út eins og ég hef þegar lýst. Eftir að málið var tekið úr nefnd bárust nokkrar umsagnir, mjög fróðlegar, frá þeim aðilum sem við höfðum rætt við og staðfestu það sem menn höfðu þar gagnrýnt.

Enn fremur gerðist það fyrir rúmri viku að fulltrúum Neyðarlínunnar var skyndilega boðið á fund iðnn. vegna þess að þeir höfðu óskað eftir því að fá að tjá sig um málið. Þetta var gert þó búið væri að afgreiða málið úr nefnd. Þó málið væri ekki statt milli 2. og 3. umræðu þá var þessum fulltrúum boðið á fund iðnn. að fjalla um þetta mál sem búið var að senda frá nefndinni. Ég hef aldrei fyrr á mínum ferli í þinginu kynnst því. En ég þakka samt fyrir að fulltrúar Neyðarlínunnar fengu að koma og tjá sig vegna þess að þar komu líka fram mjög sérstakar upplýsingar.

Hver er þá sagan í þessu undarlega máli? Jú, Póst- og fjarskiptastofnun auglýsti í fyrrasumar eftir aðila til að sjá um TETRA-fjarskiptakerfi sem á að sjá um og þjóna öryggismálum þjóðarinnar, þ.e. vera neyðarkerfi fyrir lögreglu, slökkvilið og fleiri. Staðreyndin er sú að þegar þetta var í skoðun hafði starfshópur starfað á vegum Almannavarna ríkisins --- sem líka er með í þessu --- þar sem lögreglan og Landsvirkjun voru líka með. Takið eftir því, hv. þm., að Landsvirkjun tók einnig þátt í aðdraganda málsins. Landsvirkjun ákvað í upphafi að vera með í undirbúningnum. Það hefur líka komið fram að ríkislögreglustjóri hafði óskað eftir því að Landsvirkjun væri með í vinnunni þar sem hefði verið óskað eftir að einn þjónustuaðili kæmi. Landsvirkjun stóð að undirbúningi þessa og aðdraganda með Almannavörnum, lögreglunni og öðrum þeim sem undirbjuggu málið.

Niðurstaða þeirra var að bjóða út það að setja upp fyrirtæki á TETRA-tíðnisviði og á öryggis- og neyðarbandinu sem Póst- og fjarskiptastofnun mundi auglýsa og sá sem þar yrði fenginn til verksins mundi þjóna þessum aðilum.

Þá ákveður Landsvirkjun að þeir ætli að bjóða í þetta líka. Þeir afhenda fyrrum samstarfsaðilum sínum öll gögn í málinu og segja: Takk fyrir okkur, við ætlum ekki lengur að vera hérna megin borðsins með ykkur og kaupa þjónustu þessara aðila. Nú höfum við ákveðið að við ætlum að vera með í að bjóða á þessum markaði. Nú ætlum við að vera hinum megin borðsins og seinna verður það e.t.v. þannig að við þjónum ykkur með þessu neyðarkerfi. Þar með afhentu þeir öll gögn.

Þá fer Landsvirkjun af stað og stofnar fyrirtækin sem ég hef þegar lýst. Þessi undirbúningshópur á vegum ríkisins sér um að boðið sé út hver vilji sjá um þetta öryggis- og neyðarkerfi fyrir alla þessa aðila, Almannavarnir, lögregluna, slökkviliðið o.s.frv. Það er Ríkiskaup sem býður út.

Þrjár umsóknir bárust. Tal var hæst og Landsvirkjun var næsthæst, mjög há miðað við þann næsta sem var Irja. Hún var lægst, Irja, óþekkt fyrirtæki og nýtt. En við skulum gera okkur grein fyrir því að á bak við alla þessa aðila eru stór alþjóðleg fyrirtæki hvort sem þau heita Nokia, Motorola eða Mobira, stórfyrirtæki sem þessir aðilar eru í tengslum við.

Irja fékk verkefnið og las útboðið þannig að þar með nyti Irja TETRA-markaðarins þar sem öryggisþættirnir einir sér duga harla illa til að fjármagna rekstur svona TETRA-kerfis. Það hefur komið fram hjá þeim að þá óraði ekki fyrir að öðrum aðila eða aðilum yrði hleypt inn á TETRA-kerfið, sem nú er að gerast.

Síðan gerist það í byrjun febrúar, og við vitum ekki hvers vegna, að Póst- og fjarskiptastofnun auglýsir eftir nýjum aðilum sem óski eftir að koma inn á TETRA-kerfismarkaðinn. Þá sækir TNet um, þetta dótturfyrirtæki Landsvirkjunar. Það er rétt, sem hér kom fram í andsvörum í upphafi, að það fyrirtæki var stofnað 17. ágúst 1999. Það fyrirtæki var stofnað í ágúst í fyrra og út úr því fyrirtæki dró Landsvirkjun sig nú fyrir 13. mars þar sem Landsvirkjun hefur ekki lagaumboð til að vera þar með.

Tíðnisviðin sem boðin eru út eru annars vegar fyrir öryggis- og neyðarsvið, þetta tíðnisvið sem Landsvirkjun sækir inn á með TNet, og hins vegar fyrir þjónustu við almenning. Umsóknarfresturinn rann út 13. mars og ég hef greint frá því hvernig aðdragandinn að því var hér í þinginu.

Eigendur Irju, sem gera sér allt í einu grein fyrir því í hvaða átökum þeir eiga við stóra bróður, ríkið, grípa þá til þess ráðs að selja Yrju til Línu.Nets. Lína. Net er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, Íslandssíma og starfsmanna Orkuveitu og Línu.Nets. Nú á að reyna að eiga séns í risann. Og þá er það svo fyndið að þar með er Reykjavíkurborg orðin verðandi eigandi að tveimur TETRA-kerfum, öðru í gegnum aðild sína að Landsvirkjun og hinu í gegnum aðild sína að Orkuveitu Reykjavíkur. E.t.v. er það þá sem ágreiningur fer að koma upp í stjórn Landsvirkjunar. Inn á það mun hinn fulltrúi okkar í Samfylkingunni koma hér í ræðu sinni. Þar er líka allt komið upp í loft út af vinnubrögðum.

Það kom fram, eins og ég hef áður sagt, að formaður iðnn. taldi nefndina ekki þurfa að bíða þess að hingað kæmu umsagnir, hvort sem þær væru frá Irju eða öðrum aðilum. Hann nefndi það að Irja væri ekki lengur til. Auðvitað er Irja til því hún er sams konar dótturfyrirtæki Lína.Nets sem nú á hlutabréfin, eins og dótturfyrirtækið sem Landsvirkjun ætlar að vera með í er að hluta í eigu Landsvirkjunar. Þannig eru TNet og núna Lína.Net og Irja afskaplega jafnsett.

Þegar maður snýr sér til Póst- og fjarskiptastofnunar og spyr hvort nú, 7. apríl, sé búið að afgreiða þessar umsóknir þá hefur það ekki enn verið gert. Hins vegar hefur Póst- og fjarskiptastofnun leitað álits dómsmrn. um hvort það mæli með því að fleiri en einum aðila verði hleypt inn á öryggis- og neyðarband TETRA-kerfisins. Hvort dómsmrn. telji skynsamlegt að hleypa öðrum aðila inn á öryggis- og neyðarband TETRA-kerfisins. Sú afstaða dómsmrn. liggur ekki fyrir í dag þegar við afgreiðum lagaheimild þessa til handa Landsvirkjun.

Ég vil sjá þann þingmann hér í sölum Alþingis sem heldur því fram að það sem ég hef verið að rekja hér skipti ekki máli fyrir umfjöllun alþingismanna um lagaheimild til handa ríkisfyrirtæki, eftir á. Þetta er nefnilega sagan um það hvernig stóri bróðir fer á markað. Við erum hér að tala um siðferði í vinnubrögðum. Við höfum rætt um Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirlit og með hvaða hætti við viljum búa til heilbrigðan og góðan markað sem byggi undir velferðarkerfi okkar, hvernig við viljum nýta okkur breytta stöðu og markaðshagkerfið. Til að við getum gert það þá verðum við að hafa góð eftirlitsfyrirtæki sem tryggja að hér sé farið bæði skynsamlega og eðlilega í málin og samkvæmt góðu siðferði.

Í síðustu viku gáfum við þessum stofnunum, eins og t.d. Fjármálaeftirliti, heimildir til að vera með févíti og sektir ef fyrirtæki fara ekki að reglum. En hvað erum við sjálf að gera? Ríkið, fyrirtækið okkar, er það að fara að reglum? Fer það að reglum samkvæmt því sem ég hef hér lýst? Ég segi nei.

Auðvitað tökum við afstöðu til þess hverjar lagaheimildir Landsvirkjunar eiga að vera í framtíðinni en við eigum líka að láta okkur varða um vinnubrögðin. Af hverju kom þetta mál ekki inn á þing fyrr? Af hverju fjöllum við um þetta mál hér í apríl þegar ríkisstjórnin var að véla um það í júní eða júlí í fyrra? Hvers lags er þetta?

Ég sagði að hv. formaður iðnn. hefði heimilað að fulltrúar Neyðarlínunnar kæmu inn á fund iðnn. Þó að það hafi verið handabakaleg vinnubrögð þá er ég mjög fegin því að við fengum tækifæri til að ræða við þá, enda hafði Neyðarlínan óskað eftir fundi til að koma á framfæri sínum athugasemdum. Það var alveg ljóst hvert viðhorf þeirra var. Þeim fundust vinnubrögðin ekki góð. Þeir héldu því fram að þar sem farið hefði verið út í, af hálfu þessara aðila, sem þurfa á öryggisþjónustu að halda, að fá Ríkiskaup til að bjóða þetta út ætti aðeins að vera eitt neyðarþjónustufjarskiptakerfi í gangi. Það er talið mjög erfitt eða jafnvel óframkvæmanlegt að búa til samskiptanet á milli ólíkra TETRA-kerfa. Þeir sögðu að það væri alls ekki hepppilegt að tvö TETRA-kerfi störfuðu samhliða og vart hægt að tengja þau saman. Þeir lýstu því yfir að á öryggisstöðvum þyrftu þá að vera tvö tæki, eitt fyrir TETRA-kerfið sem öryggisaðilarnir hefðu sett upp og annað fyrir hitt TETRA-kerfið því að það væri ekki hægt að tengja þau inn á eitt og sama kerfið.

Við vitum þetta ekki nógu vel vegna þess að umfjöllun í nefndinni var þá lokið. Við gátum ekkert haldið áfram með málið. Við gátum aldrei farið ofan í það hvort lagafrv. heimilaði Landsvirkjun að búa til fyrirtæki sem það ætti 100% um ljósleiðarann, við vorum aldrei komin að því. Við fengum þá ábendingu að í dag geta Nokia-kerfin og Motorola-kerfin ekki talað saman. Það er ekki hægt að tengja þau saman. Þess vegna þarf tvö tæki alls staðar þar sem menn ætla að hafa aðgang að báðum kerfunum.

[11:15]

Þeir bentu líka á að fyrirtæki Landsvirkjunar, þetta nýja TNet sem Landsvirkjun, Landssíminn og Tölvumyndir eru að stofna, er þegar búið að kaupa TETRA-kerfi, áður en Póst- og fjarskiptastofnun er búin að afgreiða umsóknina um tíðnisvið. Og hverjir eiga að fá? Þeir eru búnir að kaupa kerfið.

Og þá stendur maður hér og hugsar: Bíðum við, hvað eru heilbrigðir viðskiptahættir? Hvað er ríkið? Er ríkið að stjórna því hvernig þetta á að gerast frá a til ö, óháð öllum tímasetningum og hvort hlutirnir gerist í öfugri röð? Veit þetta fyrirtæki, TNet, sem Landsvirkjun og Landssíminn og Tölumyndir eiga, að það muni fá tíðnisvið? Það er eitthvað sem ég fæ ekki mynd af þegar ég tala við forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar og ég tek ofan fyrir honum, sem leitar álits dómsmrn. á því hvort heppilegt sé að vera með tvö kerfi inni á öryggis- og neyðarbandinu.

Því var líka haldið fram á þeim fundi að þetta frv. opnaði Landsvirkjun leið inn á hvað sem væri á markaðnum. Hins vegar væri það allt annað að hve miklu leyti verið væri að opna aðgang að línum og ljósleiðara Landsvirkjunar. Þess vegna spyr ég hæstv. iðnrh.: Er alveg ljóst að Landsvirkjun hafi fullnægjandi lagaheimildir með frv. til að stofna fyrirtæki í eigin eigu um ljósleiðarann?

Er alveg ljóst að ef Landsvirkjun ákveður á einhverjum tíma að selja þetta fyrirtæki frá sér, mun það mál koma hérna inn í þingið og þá hvernig?

Vissi ráðherrann að Ríkiskaup höfðu boðið út fyrir ríkisaðilana á öryggismarkaði fyrir nokkrum mánuðum, hverjir vildu taka að sér að sjá um þetta kerfi, kosta það og vera með þessi viðskipti og að búið var að ganga frá því og fela það einum meira að segja frekar litlum aðila, sem þorði svo ekki annað en fara í skjól stærri þegar hann sá hvert stefndi? Vissi ráðherrann þetta fyrir fram eða töldu menn að það væri algjör óþarfi að setja hæstv. ráðherra sómasamlega inn í málið?

Herra forseti. Ég ætla að enda ræðu mína nú. Mjög líklega mun ég koma aftur hér í ræðustól og vísa í fleiri umsagnir sem okkur bárust. En lokaorð mín eru þessi: Það er engan veginn ásættanlegt hvernig farið var með þetta mál í hv. iðnn. Það segir sína sögu um allt þetta mál að nú skuli vera ágreiningur uppi í stjórn Landsvirkjunar um málsmeðferð þar á bæ frá því að þetta mál hóf göngu sína þar og þar til við höfum öll horft á að fyrirtæki sem átti að vera í eigu Landsvirkjunar var að sækja um og sækja sig inn á neyðarlínu sem þegar var búið að úthluta öðrum. Á þessum orðum lýk ég máli mínu.

(Forseti (GuðjG): Vegna orða hv. þm. vill forseti taka fram að Landsvirkjun ræður engu um það hvenær mál eru tekin á dagskrá Alþingis.)