Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:27:18 (6152)

2000-04-07 11:27:18# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Málið í hnotskurn er þetta: Landsvirkjun ætlaði sér alltaf að ná í öryggisþjónustuna í TETRA-kerfinu, alveg frá upphafi. Útboð var haft á vegum Ríkiskaupa fyrir lögreglu og slökkvilið, og annað fyrirtæki bauð mun lægra, bauð lægst. Það voru þrjú fyrirtæki sem buðu og fyrirtækið Irja, lítið fyrirtæki, bauð lægst og fékk verkefnið.

Þessu getur Landsvirkjun ekki unað og nú á að ná markaðnum hvað sem það kostar. Og þessi lagasetning er hluti af því.

Þetta minnir mig á aðra lagasetningu sambærilega sem var hér til umræðu á dögunum þegar átti að tryggja Eimskip flutningana fyrir varnarliðið. Þá var risinn að kljást við litla fyrirtækið Atlantsskip sem hafði orðið hlutskarpara í útboði. Þá var hlaupið til og löggjafinn átti að bjarga málunum. Og sama er verið að gera hér.

Svona er ríkisstjórnin að hjálpa þeim stóru að klekkja á þeim smáu, hvað sem það kostar, þegar þeir tapa í eðlilegum útboðum. Eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom hér inn á hefur meðferð þessa máls verið alveg með eindæmum.

Í upphafi þegar málið kom til umræðu vissi hæstv. ráðherra greinilega ekkert um hvað málið snerist og enn síður formaður nefndarinnar. Og vinnubrögðin í nefndinni eru líka söguleg eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur rakið. Málið var tekið út með offorsi í myndaherberginu hér í hádegi 9. mars og þá skilaði meiri hlutinn nál. og nú er 7. apríl og málið fyrst að koma til umræðu.

Í athugasemdum með frv., sem er lítið frv., það er alveg rétt hjá formanni nefndarinnar, þetta er ekki stórt frv., en lítið frv. sem leynir á sér. Í athugasemdum með frv. segir að fjarskiptakerfi Landsvirkjunar geti komið að gagni fyrir fleiri aðila, m.a. þá sem starfa að öryggismálum.

[11:30]

Þetta er rangt. TETRA-kerfið, sem litla fyrirtækið Irja setti á laggirnar og lögreglan og slökkviliðið eru komin með tíu ára samning við, getur ekki tengst kerfinu sem Landsvirkjun og fyrirtæki þess eru búin að kaupa. Kerfin geta ekki talað saman. Það er því verið að minnka öryggið með því að koma á tvöföldu öryggiskerfi. Það getur kannski gerst eftir fjögur ár, segja sérfræðingar, en það er ekki víst. Þetta er mjög gagnrýnisvert. Ég ætla að minna á að þegar náttúruhamfarirnar urðu í Súðavík og á Flateyri var það ein mesta gagnrýnin á vinnubrögðin við björgun að björgunaraðilarnir og lögreglan voru með mismunandi kerfi og gátu ekki talað saman og það hamlaði björgunarstarfi. Og nú ætlar löggjafinn að fara að setja lög þannig að hægt verði að koma því viðvarandi ástandi á, bara vegna þess að Landsvirkjun vill komast yfir TETRA-kerfið, bara af því að Landsvirkjun vill gína yfir þessu öllu saman.

Ég minni á að lögreglan og slökkviliðið eru komin með tíu ára samning við hitt fyrirtækið sem var hlutskarpast í útboði Ríkiskaupa á síðasta ári. Og m.a. vegna þess hvernig björgunarstörfin reyndust fyrir vestan á sínum tíma var ákveðið að koma á einu samræmdu kerfi, einu samræmdu TETRA-kerfi, og var ákveðið að fara af stað í sumar sem leið í þá veru.

Það þarf líka að koma hér fram að öryggistíðni er yfirleitt tekin frá sérstaklega fyrir lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir, og henni er haldið frá öðrum fjarskipum. Þannig er það víða í heiminum, þessu er haldið alveg aðskildu. Gerð var undanþága á því hér vegna þess að íslenski markaðurinn er svo lítill. Póst- og fjarskiptastofnun gerði undanþágu fyrir lægstbjóðanda í útboðinu sl. haust um að það þyrfti ekki að vera eingöngu fyrir þessa björgunaraðila vegna þess að ekki var talið að fyrirtækið gæti staðið undir sér bara með öryggisþættinum, og þess vegna gerði Póst- og fjarskiptastofnun sérstaka undanþágu fyrir Ísland í þessa veru.

Í haust var talið að eitt fyrirtæki gæti ekki staðið undir öryggisþættinum. Núna ætlar Alþingi að samþykkja breytingu á lögunum þar sem setja á annað fyrirtæki inn á þennan markað. Hvers konar endemis della er hér í gangi? Nú er allt í einu hægt að reka tvöfalt kerfi. Nú nokkrum mánuðum seinna er að mati Landsvirkjunar fjárhagslegur grundvöllur fyrir tveimur kerfum.

Þegar útboðið var gert sl. haust byggði Irja, fyrirtækið sem var hlutskarpast, allar forsendur sínar á því að þeir yrðu einir á markaðnum og töldu sig geta rekið það ef þeir væru einir á markaðnum en auðvitað eru allar forsendur brostnar ef á að fara að setja Landsvirkjun inn á þennan markað líka, fyrir utan það að verið er að minnka öryggið með þessu tvöfalda kerfi.

En það er ýmislegt fleira sérkennilegt í þessu máli. Forstjóri Landsvirkjunar hefur haldið því fram bæði í fjölmiðlum og víðar að algjör samstaða sé um málið í stjórn Landsvirkjunar. Samstaðan er nú ekki meiri en það að einn af stjórnarmönnunum, sem er fulltrúi fyrir ansi stóran hóp eigenda, þ.e. fulltrúi Reykjavíkurborgar, lagði fram átta spurningar í mörgum liðum fyrir forstjóra Landsvirkjunar 19. mars sl. Það er alllöngu eftir að málið var afgreitt í hasti í myndaherberginu úr iðnn. Ég get nú ekki sé annað á þeim spurningum en að ákveðnar efasemdir séu uppi hjá þessum fulltrúa Reykjavíkurborgar, sem er borgarstjórinn í Reykjavík, þegar hún spyr forstjórann í þaula um málefni fyrirtækisins og þessar fyrirætlanir.

Það var samstaða í stjórn Landsvirkjunar þegar farið var í fyrsta útboðið um að vera með í þessu útboði og fara inn á þennan öryggismarkað fyrir almannaöryggi en eftir að fyrirtækið tapaði í útboðinu hefur þetta mál ekki verið til umræðu. Og samþykkt var í stjórninni að byggja ætti þetta á sviði öryggismála, þ.e. þetta mál af hálfu Landsvirkjunar. En það er sem sagt öllum aðferðum beitt. Mig langar til að rekja aðeins hvernig vinnubrögðin hafa verið í nokkrum dæmum.

Landsvirkjun sendir Póst- og fjarskiptastofnun bréf 15. mars sl. um að Landsvirkjun sé ekki lengur aðili að fjarskiptafyrirtækinu TNeti, sem er fyrirtækið sem Landsvirkjun ætlaði að nota í þennan öryggisþátt. Næsta dag, 16. mars, kemur á heimasíðu Nokia að Landsvirkjun sem hluti af TNeti hafi keypt farsímakerfi eða öryggiskerfi sem það hyggist nota á landsvísu hér, þ.e. TETRA-kerfi. Það er TETRA-kerfið sem við höfum verið að tala um sem ekki getur haft samskipti við kerfi sem þegar er komið af stað fyrir lögregluna og slökkviliðið. 29. mars, hálfum mánuði seinna, svarar forstjóri Landsvirkjunar aðspurður um hvort fyrirtækið sé enn þá hluti af þessu TNeti, og í svörum til borgarstjórans í Reykjavík, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, kemur fram, 29. mars, hálfum mánuði eftir að hann tilkynnir Póst- og fjarskiptastofnun að Landsvirkjun sé ekki hluti af því: Landsvirkjun á 1/3 hlut í TNeti. Þetta er hálfum mánuði eftir að Póst- og fjarskiptastofnun fær bréf um að þeir séu ekki hluti af því.

Og annað sem er náttúrlega líka mjög sérkennilegt. Ég fletti í gær upp í hlutafélagaskrá. Þar kemur í ljós að Landsvirkjun hefur ekki einu sinni hirt um að láta hlutafélagaskrá vita að þeir eru ekki lengur hluti af þessu fyrirtæki. Í hlutafélagaskrá kemur í ljós að rekstrarstjóri Landsvirkjunar er stjórnarformaður TNets enn þá. Það hafa ekki verið gerðar neinar tilkynningar um að Landsvirkjun sé ekki hluti af þessu fyrirtæki.

Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum. Og hvern er verið að blekkja? Póst- og fjarskiptastofnun er tilkynnt 15. mars að þeir séu ekki hluti af fyrirtækinu, iðnn. er ekkert látin vita, formaður iðnn. var látinn vita samkvæmt því sem hann sagði í ræðu sinni í upphafi. Í fréttum í gær á Stöð 2 kom fram að þeir séu farnir út úr fyrirtækinu tímabundið í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun. Póst- og fjarskiptastofnun ber það til baka í lok fréttarinnar. Og síðan eru þetta staðreyndirnar: 29. mars er borgarstjóranum tilkynnt að Landsvirkjun sé enn þá hluti af þessu. Og hlutafélagaskrá er ekki tilkynnt um að Landsvirkjun hafi dregið sig út.

Ég velti fyrir mér hvernig menn ætla að hafa þetta. Stendur til að rekstrarstjóri Landsvirkjunar eigi, þegar þetta fyrirtæki verður komið á laggirnar, að semja við sjálfan sig, stjórnarformanninn í TNeti, um öll þessi mál? Ég held, herra forseti, að ýmislegt sé óathugað í þessu máli og full ástæða sé til þess að þetta mál komi aftur til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. Því að slíkur er maðkurinn í mysunni að ýmissa skýringa þarf við, fyrir utan hitt að það er ábyrgðarhluti ef menn ætla að fara að samþykkja þessa heimild til Landsvirkjunar þegar áform eru uppi um að koma á tvöföldu kerfi, tvöföldu öryggiskerfi sem geta ekki einu sinni verið í samskiptum hvort við annað. Það er ábyrgðarhluti þingmanna að samþykkja slíkt. Það er því full ástæða til að þetta verði allt saman skoðað mun betur.

Eins og maður sá málið fyrst þegar það kom fyrir þingið virkaði þetta allt mjög sakleysilegt, lítið mál, leyfa Landsvirkjun að nota kerfið. Það getur vel verið að full ástæða hafi verið til að opna kerfið hjá Landsvirkjun, þeir hefðu t.d. getað leyft Línu.Neti að koma inn í kerfið og leigja sér inn í þetta kerfi Landsvirkjunar. (Gripið fram í.) Það hefði verið hægt að gera það í staðinn fyrir að koma á öðru kerfi.

Það er búið að samþykkja hér að setja á laggirnar tvöfalt kerfi meðan niðurstaða allra aðila í haust var sú að það ætti að vera eitt kerfi, það væri öryggisatriði og að fyrirtæki gæti ekki borið sig nema að vera eitt á þessum markaði. Það er alveg greinilegt að nú á að láta Landsvirkjun fara af stað --- ég minni á að lögreglan og slökkviliðið eru með tíu ára samning við hitt fyrirtækið --- og þá verður slíkt fyrirkomulag næstu a.m.k. fjögur árin að ófremdarástand verður í öryggismálum þjóðarinnar vegna þess að þessi kerfi tala ekki saman. Og verið er að koma á sama ástandinu og kvartað var undan í Súðavík og á Flateyri á sínum tíma.

Ég spyr: Ætla menn að stuðla að því að þetta verði svona? Fyrir utan það að full ástæða er til að spyrja hæstv. ráðherra, sem er hér á svæðinu, hvort hæstv. ráðherra hafi vitað um hvernig í pottinn var búið. Það var greinilegt að hann vissi það ekki í upphafinu þegar málið kom hér fyrst til umræðu og ég lái henni ekki að hafa ekki vitað hvernig þessi mál voru öll, það vissu það nú fæstir. Ég vil geta þess að við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir höfum ekki lagt fram minnihlutaálit vegna þess að við höfum verið að fá upplýsingar um þetta mál alveg fram á þennan dag. Engu að síður taldi meiri hluti nefndarinnar að það væri fullklárað 9. mars. Ég efast um að ég sé búin að fá allar upplýsingar um málið þó að ég hafi verið að vinna í því undanfarna daga. En allar upplýsingar sem ég hef fengið eru ákaflega sérkennilegar og benda til þess að þarna hafi eitthvað óeðlilegt verið að gerast í málefnum Landsvirkjunar. Ég tel því fulla ástæðu til og ég fer fram á það, herra forseti, að málið fari aftur til nefndarinnar áður en það kemur til 3. umr. því að það er ýmislegt sem við nefndarmenn þurfum að skoða betur og við þurfum að átta okkur á því hvað er að gerast.

Ég leyfi mér líka að spyrja um aðra nefndarmenn í iðnn. Hér eru tveir úr stjórnarmeirihlutanum viðstaddir umræðuna ásamt herra forseta sem er við skyldustörf. En engu að síður hefði ég gjarnan viljað sjá hér framan í hv. þm. í iðnn., sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem eru að koma fram um hvað sé hér á ferðinni. Því að ég er alveg sannfærð um að þessir hv. þm. sem skrifuðu undir nál. meiri hlutans vissu ekki í rauninni hvernig í pottinn var búið, ég er alveg viss um það og þykist vita að þeir vissu það ekki.

Herra forseti. Það er ábyrgðarhluti að koma á tvöföldu kerfi í öryggismálum. Það er óeðlilegt að ríkisvaldið stuðli að því að drepa niður frumkvæði fyrirtækja eins og Irju sem, eins og komið hefur hér fram, hefur hlaupið í skjól hjá Línu.Neti. Og það er alls ekki eðlilegt að reka hérna þessi tvö kerfi aðskilin.

[11:45]

Það er líka sérkennilegt að þegar Landsvirkjun bauð út kostaði það allháa fjárhæð en í dag er það mun lægri upphæð sem þeir telja sig geta rekið þetta á. Í september bauð TNet þrefalt hærra í útboði Ríkiskaupa en þeir telja núna að þeir geti boðið lægra verð en samkeppnisaðilinn. Þetta er ákaflega sérkennilegt.

Maður veltir líka fyrir sér ýmsum öðrum hlutum, hvort Landsvirkjun sé þarna að færa fjármuni frá Landsvirkjun yfir í einkafyrirtæki. Landsvirkjun lét útbúa fyrir sig ítarlega úttekt hjá erlendu fyrirtæki, Omnitel. Omnitel gerði skýrslu sem kostaði 20 millj. kr. og nú er skýrslan færð TNeti til eignar. Þarna er náttúrlega verið að færa peninga úr fyrirtækinu yfir til þessa einkafyrirtækis sem Landsvirkjun er eða er ekki hluti af, sem eru hér misvísandi upplýsingar um.

Ég verð að segja að það er siðlaust hvernig allt þetta mál hefur verið lagt upp og hvernig hefur verið staðið að því.

Herra forseti. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra svari okkur þeim spurningum sem við höfum lagt fram. Ég óska eftir því að hún upplýsi okkur um hvað hún viti og hvað hún hefur verið upplýst um þetta mál. Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst henni eðlilegt að vera að koma á tvöföldu öryggiskerfi? Þetta er eins og að koma á tvöföldu vegakerfi um landið, að setja upp tvöfalt öryggiskerfi og tvöfalt vegakerfi sem er ekki hægt að fara á milli. Annaðhvort verður að vera á öðrum þjóðveginum eða hinum, það er engin tenging á milli.

Telur hæstv. ráðherra það vera til bóta að koma á þessu tvöfalda kerfi? Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Er hún tilbúin að draga málið til baka í ljósi þess að verið er að ógna öryggi þjóðarinnar? Þarna hafa greinilega verið viðhöfð óeðlileg vinnubrögð hjá Landsvirkjun.