Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:51:59 (6155)

2000-04-07 11:51:59# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:51]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt. Ég hygg að það sé ágreiningur og hefur komið þá fram í andsvari hv. þm. að það er ágreiningur um það hver á að taka ákvörðun um innri málefni Landsvirkjunar. Ég er þeirrar skoðunar og ég hygg að meiri hluti iðnn. sé þeirrar skoðunar að það sé stjórn Landsvirkjunar sem taki þá ákvörðun.

Síðan á almenningur, þar á meðal alþingismenn, alla möguleika að gera athugasemd gagnvart stjórninni. Við höfum líka Póst- og fjarskiptastofnun og við höfum Samkeppnisstofnun sem er m.a., eins og fram kemur í nál., ætlað að fylgjast með því hvort ólíkum rekstri sé blandað saman en á það leggur meiri hlutinn þunga áherslu.

Rétt síðan um borgarstjórann í Reykjavík, sem hefur verið dreginn inn í þessa umræðu, er alveg ljóst að samþykktir Landsvirkjunar eru einróma. Öll stjórn Landsvirkjunar stendur að þeirri ákvörðun. Ég ætla síðan ekki að neinu leyti að verja þá gjörð. En það er rétt að draga það fram að öll stjórn Landsvirkjunar stendur að þessari samþykkt. Ég hef séð spurningarnar, það er svo allt annað mál að leggja fram gagnrýnar spurningar og það er bara mjög eðlilegt og ágætar spurningar hjá borgarstjóranum í Reykjavík. En þar kemur m.a. fram, herra forseti, að borgarstjórinn í Reykjavík telur eðlilegt að stjórn Landsvirkjunar hlutist til um hversu langt er gengið á þessu sviði sem og öðrum sviðum sem fyrirtækið kann að starfa á.