Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:27:22 (6166)

2000-04-07 12:27:22# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:27]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 10. þm. Reykv., Pétur H. Blöndal, hreyfði við vinnubrögðum í ræðu sinni og ég vil taka undir með honum. Þar erum við sammála um leikreglur, þ.e. hvernig á að fara í mál. Við erum ósammála í pólitík eins og alþjóð veit. En það held ég að sé svo alvarlegt og það á að tala um það í hvert sinn sem það gerist, að við skulum nánast aldrei komast í að ræða og takast á pólitískt um meginlínur í málum, að við skulum enn vera í þeirri stöðu að mál hér og mál þar séu matreidd inn til okkar utan úr bæ, tilfallandi þá, ekki heildstætt, mál sem passa ekkert inn í þann heildarramma e.t.v. sem menn telja að þeir standi fyrir. Þannig gerast hlutirnir. Ég er svo innilega sammála hv. þm. Pétri Blöndal hvað þetta varðar. Það væri mjög heilbrigt fyrir okkur ef við gætum snúið umræðunni við þannig að 1. umr. væri yfirleitt átök manna um heildarsýn þeirra eða pólitíska heildarsýn á það hvernig skuli farið í mál, en ekki að gera okkur út sem eins konar sérfræðinga strax frá byrjunarpunkti og vera þar með orðnir praktískir aðilar, jafnvel rekstraraðilar mála.