Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:29:03 (6167)

2000-04-07 12:29:03# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það með síðasta hv. ræðumanni að 1. umr. á að vera um heildarsýn. Þá á að fjalla almennt um mál en kannski ekki um mál í smáatriðum hvað varðar ákveðnar greinar. (Gripið fram í.) Þetta var kannski útúrdúr en ég stóðst ekki freistinguna að taka undir með hv. þm. hvað þetta varðar.

Ég vil næst þakka hv. iðnn. fyrir störf að frv. og er algjörlega sammála því sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar hvað það varðar að það er stjórn Landsvirkjunar sem ákveður hversu langt fyrirtækið gengur í rekstri fjarskiptafyrirtækja. En hins vegar er lögð áhersla á að það verði tryggt að rekstur fjarskiptakerfis Landsvirkjunar verði aðskilinn frá öðrum rekstri fyrirtækisins og út á það gengur frv.

[12:30]

Nokkrar spurningar hafa komið fram hjá hv. þm. og m.a. spurningin um hvort ég telji að Landsvirkjun hafi heimildir með samþykkt þessa frv. til að stofna eða gerast aðili að fyrirtæki á fjarskiptasviði. Ég tel að svo sé. Það er niðurstaða mín.

Síðan var spurt um það ef Landsvirkjun selur, hvort það muni þá koma til kasta Alþingis að fjalla um það mál. Niðurstaða mín er sú að svo sé ekki í þessu tilfelli. (Gripið fram í: Ef Landsvirkjun selur?) Að ekki þurfi að koma til kasta Alþingis þó svo að af þessari fyrirtækjastofnun yrði og síðan tæki Landsvirkjun þá ákvörðun að selja í fyrirtækinu.

Síðan var spurt um öryggisnetið og öryggiskerfið. Hv. þm. hafa áhyggjur af því að verið sé að koma upp tvöföldu öryggiskerfi og ég get í sjálfu sér skilið þær áhyggjur, en ég tel að það sé dómsmrn. sem muni fjalla um það mál og þar af leiðandi þarf ég ekkert að tjá mig frekar um það. Dómsmrn. hlýtur að vera best til þess bært að fjalla um slík mál. Auðvitað er hugmyndin með þessu frv. og málinu öllu saman að efla öryggi landsmanna. Dómsmrn. mun því að sjálfsögðu horfa á málið þeim augum.

Einnig var fjallað um eignaraðild að Landsvirkjun, hvort þetta væri jafnvel fyrsta skrefið í því að einkavæða Landsvirkjun. Þess ber að geta að borist hefur erindi frá eignaraðila, sem er Reykjavíkurborg, þess efnis að hefja viðræður um það á meðal eignaraðila hvernig eignarhaldi skuli háttað til framtíðar í þessu fyrirtæki. Og þessa dagana erum við í iðnrn. að vinna að því að koma þeim umræðum í ákveðinn farveg og síðan verður það að koma í ljós í fyllingu tímans hvað eignaraðilar telja best í þeim efnum og að sjálfsögðu mun það mál þá koma til kasta Alþingis.

Ég freistast nú til að segja í lokin af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir skýrði það þannig að ekki hefði verið skilað nál. af hálfu minni hlutans að minni hlutinn vildi ekki hafa afskipti af málinu. Ég held að það hljóti að vera öllum ljóst að með ræðum sínum hér í dag eru hv. þm. náttúrlega að hafa afskipti af málinu og hafa auðvitað fullan rétt til þess og ekkert óeðlilegt við það að í málinu geti verið skiptar skoðanir, en ég legg áherslu á að af hálfu ríkisstjórnarinnar og af minni hálfu sem iðnrh. er fyrst og fremst verið að koma málunum í þann farveg að Landsvirkjun geti átt í fjarskiptafyrirtæki, og verði frv. að lögum verður það heimilt.