Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:34:03 (6168)

2000-04-07 12:34:03# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:34]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þau svör sem hæstv. ráðherra kom með við fyrirspurnum mínum. Hæstv. ráðherra telur að þetta frv., eins og það er orðað, veiti Landsvirkjun lagaheimild til þess bæði að búa til sérstakt fyrirtæki 100% í sinni eigu til að selja aðgang að fjarskiptaneti sínu og jafnframt að vera með í öðrum fyrirtækjum á markaði er lýtur að því sem ég varði löngum tíma mínum í morgun að ræða varðandi TETRA-fjarskiptin.

Það vekur sérstaka athygli mína eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram að hæstv. ráðherra svari því til að hún telji að ekki þurfa að koma til kasta Alþingis ef Landsvirkjun ákveður síðan að selja annaðhvort 100% eignarfyrirtækið sem hún setur upp um ljósleiðarann eða þau fyrirtæki sem hún ætlar að vera hluti af. Þetta held ég að þýði fyrir flesta í þessum sal að sú ákvörðun, sem tekin er með lagasetningunni sem við erum að fjalla um, sé miklu stærri en menn hafa áður talið. Þetta svar finnst mér mikilvægast af því sem hefur komið hér fram í dag.

Það að erindi hafi borist frá Reykjavíkurborg um að hefja viðræður um hvernig eignarhaldi skuli háttað varðandi Landsvirkjun til frambúðar þekkjum við vegna þess að borgarstjórinn í Reykjavíkur hefur látið í ljós þá skoðun að e.t.v. eigi Reykjavíkurborg að losa sig út úr eignarhaldi að Landsvirkjun vegna þess að það brjóti í bága við það að Reykjavíkurborg rekur annað orkufyrirtæki.

Varðandi afskipti okkar af afgreiðslunni sneri sú athugasemd mín að afgreiðslu málsins úr nefnd. Við munum síðar taka afstöðu til málsins þegar það kemur til afgreiðslu hér.