Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:36:16 (6169)

2000-04-07 12:36:16# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað fá svar við þeirri spurningu hjá hæstv. ráðherra hvaða raunverulega tilgang hún telji vera á bak við frv. Í máli sínu við 1. umr. talaði hæstv. iðnrh. um að verið væri að veita Landsvirkjun lagaheimild til að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækjum. Sami tónninn hefur verið bæði í formanni iðnn. og í nál. En eftir allt það sem við erum búin að koma með fram hér, bröltið í Landsvirkjun við að koma upp TETRA-kerfi, kaupa það, draga sig út úr TNeti, hvort sem það er nú raunverulegt eða ekki, upplýsingarnar um að þeir hafa ekki tilkynnt það til hlutafélagaskrár, að forstjóri Landsvirkjunar gefur borgarstjóranum í Reykjavík þær upplýsingar að Landsvirkjun sé enn þá inni í TNeti þegar bréf til Póst- og fjarskiptastofnunar segir að þeir séu þar ekki, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er hin raunveruleg ástæða fyrir þessu? Hún er ekki bara sú að opna fyrir aðild að þessum fyrirtækjum. Getur hæstv. ráðherra ekki svarað því hvort þarna sé eitthvað annað sem býr að baki eftir alla þá umræðu sem hér hefur verið í dag?