Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:22:01 (6185)

2000-04-07 14:22:01# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs.

Frv. þetta er lagt fram eftir heildarskoðun á gjaldtöku\-ákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs. Hún var gerð til að tryggja betur samræmda gjaldtöku og skýrleika gjaldtökuákvæða. Í frv. eru lagðar til ýmsar breytingar í þessu skyni. Frv. felur ekki í sér breytingar á fjárhæð gjalda að öðru leyti en því að fjárhæðir í gildandi lögum eru uppfærðar miðað við breytingar sem gerðar hafa verið með reglugerð vegna vísitölubreytinga.

Frv. skiptist í sex kafla. Í I. kafla eru tillögur um breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Lagt er til að 18. gr. laganna, þar sem kveðið er á um veiðieftirlitsgjald, falli brott. Samhliða frv. þessu er lagt fram frv. til laga um veiðieftirlitsgjald þar sem lagt er til að grunnfjárhæð gjaldsins og verðmætahlutföll einstakra tegunda verði lögfest.

Í II. kafla eru tillögur um breytingar á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Tekið er tillit til breytinga sem felast í frv. til laga um veiðieftirlitsgjald. Auk þess er lagt til eins og áður segir að vísitölubinding verði afnumin og samræmi tryggt við álagningu gjalds. Lagt er til að gerðar verði breytingar á orðalagi laganna svo að þróunarsjóðsgjald verði innheimt vegna hvers konar aflaheimilda innan árs en núgildandi orðalag nær ekki til aflahámarks í norsk-íslensku síldinni og krókaaflamarks.

Í III. kafla frv. eru lagðar til breytingar á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Í samræmi við það sem áður segir um frv. til laga um veiðieftirlitsgjald er lagt til að ákvæði 8. gr. laganna sem fjalla um slíkt gjald falli brott.

Í IV. kafla frv. eru tillögur um breytingar á gjaldtökuákvæði laga nr. 11/1998, um Kvótaþing. Í samræmi við fyrrgreint markmið frv. um skýrleika gjaldtöku er lagt til að grundvöllur gjalds fyrir þjónustu Kvótaþings verði lögfestur. Miðað er við að gildandi gjaldskrá verði lögfest.

Í V. kafla er lagt til að ákvæði laganna um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í fullvinnsluskipum falli brott. Í áðurgreindu frv. til laga um veiðieftirlitsgjald, sem lagt er fram samhliða frv. þessu, er lagt til að um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum verði fjallað heildstætt.

Í VI. kafla laganna er lagt til að lögin taki þegar gildi.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjútvn.