Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:29:06 (6190)

2000-04-07 14:29:06# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þau tvö þingmál sem hér er fjallað um og hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir eru þess eðlis að verið er að samræma og einfalda gjaldtöku í sjávarútvegi, þ.e. framkvæma ákveðna lagahreinsun í því sambandi sem er af því góða. Það er mjög athyglisvert að mælt skuli fyrir þessum málum daginn eftir að Hæstiréttur felldi dóm þar sem Hæstiréttur bendir m.a. á í umsögn sinni að Alþingi hafi frjálsar hendur um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða án þess að handhafar geti gert nokkra kröfu um bótarétt í því sambandi. Hæstiréttur bendir sérstaklega á að m.a. sé hægt að taka upp og auka fégjald í því sambandi. Þá koma daginn eftir þessi viðbrögð frá hæstv. ráðherra, sú lagahreinsun og sú samræming sem hér á sér stað.

Þá er full ástæða, herra forseti, til að spyrja ráðherrann: Er þetta það? Telur hæstv. ráðherra að nú sé fullreynt af hans hálfu, þetta sé það sem hann hyggist fyrir í sambandi við fégjaldið sem Hæstiréttur ræðir um? Útilokar hæstv. ráðherra að frá honum komi aðrar tillögur og ítarlegri í því efni? Það væri fróðlegt, virðulegi forseti, að fá að heyra hvað sjútvrh. hefur um þetta mál að segja.