Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:33:31 (6192)

2000-04-07 14:33:31# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á mjög athyglisverðri yfirlýsingu frá hæstv. sjútvrh. Við erum að ræða um gjaldtöku bæði fyrir úthlutaðar aflaheimildir og landaðan afla eða kvóta sem verið er að einfalda og samræma og það er vel. Auðvitað dettur mér ekki í hug að tengja þessi tvö frv. saman við niðurstöðu Hæstaréttar frá því í gær enda voru frv. smíðuð og kynnt á Alþingi löngu fyrir þann tíma. Það sem er athyglisvert í því sem hæstv. ráðherra er að segja er að nú í fyrsta skipti útilokar hann ekki sem málsvari ríkisstjórnarinnar að það kunni að verða niðurstaðan, ekki til þess að bregðast við dómi Hæstaréttar, heldur til þess að uppfylla kröfurnar um jafnrétti og jafnan aðgang og kröfuna um eðlilegan afrakstur þjóðarinnar á sameiginlegri auðlind. Hæstv. ráðherra útilokar ekki að niðurstaðan kunni að verða sú að í því sambandi þurfi að leggja fram á Alþingi frv. um frekari auðlindagjaldtöku en gert er ráð fyrir. Það kalla ég jákvæða yfirlýsingu af hans hendi, hann lokar ekki á það mál, hann er með öðrum orðum tilbúinn til þess að skoða það.