Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:36:06 (6194)

2000-04-07 14:36:06# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hingað til hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda að ekki kæmi til greina að auka þá beinu gjaldtöku sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi með þeim hætti sem þau gjöld eru tekin sem við erum að ræða um í dag, þ.e. gjaldtöku miðað við úthlutaðar aflaheimildir eða landaðan afla, heldur ætti arðurinn af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja að skila sér til landsmanna í auknum sköttum þegar hagnaðurinn af rekstrinum færi að skila sér inn í greinina. Þetta hefur hingað til verið stefna íslenskra stjórnvalda. Lái mér það hver sem vill þó að ég telji að það sé athyglisvert þegar hæstv. sjútvrh. lýsir þeirri skoðun sem hann lýsti hér. Hann útilokar ekki lengur þá lausn sem t.d. við í Samfylkingunni höfum lagt fram í frv. á Alþingi. Hann hafnar henni ekki alfarið. Það hefði þótt athyglisvert ef slík yfirlýsing hefði komið frá fyrrv. sjútvrh. Ég hygg að það ágæta blað, Morgunblaðið, hafi beðið eftir slíkri yfirlýsingu frá honum missirum saman og skrifað marga leiðara þar sem leiðarahöfundur lýsti þeirri von sinni að slík yfirlýsing kæmi fyrr eða síðar frá honum. Hún kom aldrei en hún kemur fram nú. Það er full ástæða til þess fyrir okkur sem höfum barist fyrir þessum málum um margra ára skeið að fagna því þegar hæstv. sjútvrh. opnar fyrir slíka lausn. Hann útilokar hana ekki lengur. Það er nokkur ávinningur af baráttunni.