Réttindagæsla fatlaðra

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:50:59 (6198)

2000-04-07 14:50:59# 125. lþ. 95.36 fundur 419. mál: #A réttindagæsla fatlaðra# frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér er enn eitt fylgifrv. með félagsþjónustufrv. og samið í tengslum við það.

Í lögunum þar sem flutningur um málefni fatlaðra til sveitarfélaga var ákveðinn var ákveðið að huga skyldi sérstaklega að réttindagæslu fatlaðra. Nefnd þeirri sem falið var að semja frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga var því ætlað að taka til sérstakrar athugunar hvernig svo mætti verða. Niðurstaðan varð sú að svo afmörkuðu verkefni yrði best fyrir komið í sérlögum, enda ætti það ekki samleið innan laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Landssamtökin Þroskahjálp sem hafa hvatt mjög til að málefni fatlaðra færist til sveitarfélaga hafa jafnframt lagt ríka áherslu á að við þann flutning verði réttindagæslu fatlaðra gefinn sérstakur gaumur. Sjónarmið samtakanna er að réttindagæslan sé forsenda þess að vel takist til um flutning málaflokksins til sveitarfélaganna. Er það álit Þroskahjálpar að því verkefni sé best borgið hjá ríkinu, enda sé það best fallið til að hafa eftirlit með framkvæmd félagsþjónustunnar hjá sveitarfélögunum.

Í frv. felst einstaklingsbundin réttindagæsla fatlaðra. Það þýðir að fatlaðri eigi sér hauk í horni, þeir eigi rétt á aðstoð trúnaðarmanns og geti snúið sér til hans með erindi sín. Grundvallaratriði í störfum trúnaðarmanna er að beita sér fyrir því að réttur fatlaðra til aðstoðar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sé virtur. Sú áhersla sem lögð er á þjónustu samkvæmt þeim lögum stafar því af þörf á réttindagæslu fatlaðra og tengist beinlínis flutningi á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga. Jafnframt geta fatlaðir leitað til trúnaðarmanns um á hvern hátt félagsþjónustan sé veitt og að þjónustan hæfi hverjum og einum.

Ekki er þó látið við það sitja heldur er trúnaðarmanni einnig ætlað að beita sér fyrir því að veitt sé lögbundin aðstoð eftir öðrum lögum eftir því sem við á, einkum á sviði heilbrigðisþjónustu, almannatrygginga, mennta- og atvinnumála. Trúnaðarmönnum er ætlað að starfa í hverju kjördæmi og auk trúnaðarmanna í kjördæmum skal skipaður réttindagæslumaður fatlaðra sem þjónar landinu öllu. Það leiðir til þess að komið verði á fót skrifstofu réttindagæslumanns. Réttindagæslumaður hafi yfirumsjón með réttindagæslu fatlaðra um allt land, samræmi vinnubrögð trúnaðarmanna og hafi eftirlit með að þeir ræki skyldur sínar. Starfið gerir því miklar kröfur til réttindagæslumanns. Hann þarf að búa yfir víðtækri þekkingu og yfirsýn yfir réttindi og þarfir fatlaðra. Hann vinnur almennt að réttindamálum fatlaðra en ekki er gert ráð fyrir að einstaklingar leiti til hans með sín mál. Þeir hafa trúnaðarmenn til þess. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að réttindagæslumaður aðstoði trúnaðarmenn við vinnslu einstaklingsmála, óski trúnaðarmenn eftir því. Með fyrirkomulagi þessu er réttindagæslu fatlaðra komið í traust form og enn betur búið að henni en nú er gert í gildandi lögum um málefni fatlaðra.

Talið er rétt að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar að fjórum árum liðnum frá gildistöku laganna og verði þá metið hvort áfram sé þörf á þessari sérstöku þjónustu við fatlaða.

Verði frv. óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að aukin útgjöld ríkisins nemi 6--6,5 millj. kr. Í frv. eru ákvæði um að lögin skuli endurskoðuð að fjórum árum liðnum.

Ég geri, herra forseti, tillögu um að þetta mál fari til athugunar í hv. félmn. en legg ekki áherslu á að það verði afgreitt frekar en hin frv. fyrir vorið þar sem þetta er fylgifrv. með félagsþjónustufrv.