Matvæli

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:32:54 (6209)

2000-04-07 15:32:54# 125. lþ. 95.37 fundur 554. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:32]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir skýr svör við þeim spurningum sem fram hafa komið. Það er út af fyrir sig slæmt að menn hafi ekki áttað sig á þeim kostnaði sem er í kringum þetta eða hvort einhver hætta sé á að þetta fari út í verðlagið, nóg er nú samt, en mér finnst það mikilvægt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að það er hennar skoðun, og þá hlýtur reglugerðinni að vera hagað með þeim hætti að starfsmenn missi einskis í launum við að fara á slík námskeið og þau verði að fullu kostuð af viðkomandi aðilum eða framleiðendum og það er auðvitað mjög eðlilegt.

Síðan fagna ég því einnig sem fram kom í máli hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur að það er skoðun hennar að einfalda þurfi matvælaeftirlitið í landinu. Ég er innilega sammála henni að mjög brýnt sé að gera það og treysti því að ráðherrann beiti sér þá fyrir því, eins og hún nefndi hér. Mín skoðun er að þetta eigi að heyra undir eitt ráðuneyti, ég held að það sé affarasælast að eitt ráðuneyti beri ábyrgð í þessum efnum en ekki sé verið að dreifa málaflokknum yfir á fleiri ráðuneyti og manni finnst svona fljótt á litið að umhvrn. hljóti að koma sterklega þar inn.

Það er auðvitað mjög slæmt og er kannski engin nýjung að matvælaeftirlitið, eins og hæstv. ráðherra upplýsti, er ekki í góðu horfi og það séu of mörg grá svæði. Á því er mjög brýnt að taka með miklum hraði vegna þess að við getum ekki búið við það að matvælaeftirlitið í landinu sé í slæmu ástandi.